Lífskjarasamningar!

Það er mikið ánægjuefni þegar samstaða næst milli Verkalýðshreyfingarinnar, stjórnvalda og atvinnurekanda um stórsókn í lífskjörum. Sérstaklega þegar bætt kjör skila sér mest til þeirra sem verst eru settir, þó allir njóti góðs af.

Ég vil hrósa forystu verkalýðshreyfingarinnar sem var staðföst í kjarabaráttu fyrir sitt fólk. Þá á ríkisstjórnin einnig hrós skilið fyrir að koma myndarlega að málum með 80 milljarða að borðinu sem eiga að styrkja enn frekar lífskjör fólks með sérstakri áherslu og ungt barnafólk og þá sem lökust kjörin hafa. Það má líka hrósa atvinnurekendum fyrir að hafa skilning á því að nú þyrfti fyrst og fremst að horfa til þeirra sem verst væru settir. Þannig náðist samstaða um krónutöluhækkanir sem gagnast þeim hlutfallslega best sem lægri laun hafa.

Launaskrið hátekjuhópa má ekki fara af stað og er það sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags að koma í veg fyrir að aðrir hópar taki til sín meira en samstaða hefur náðst um. Ávinningur samfélagsins er mikil ef okkur tekst að halda áfram að byggja hér upp öflugt efnahagslíf og hagvöxt sem reistur er á verðmæta aukningu í samfélaginu en ekki innihaldslausri þenslubólu eins og varð okkur að falli í hruninu.

Tímamótasamningar

Það verður spennandi að sjá hverning til tekst með að auka vinnustaðalýðræði með möguleika á verulegri styttingu vinnutímans.

Ríkið setur sinn svip á þessa samninga og fullyrt er að aldrei hafi ríkið komið með svo öflugum hætti að gerð kjarasamninga. Ég tel að það muni koma til með að nýtast öðrum hópum sem eiga eftir að semja.

Þar má nefna:

Aðgerðir í húsnæðismálum sem gagnast sérstaklega ungu fólki og tekjulágum.

Nýtt skattþrep og nýtt viðmið með hærri persónuafslætti sem helst þeim tekjulægri.

Lenging fæðingarorlofs í tólf mánuði, auknar barnabætur og hækkuð viðmið við greiðslu barnabóta.

Ný húsnæðislán fyrir tekjulága og stuðningur við fyrstu kaup á húsnæði.

Skýrari reglur um leiguvernd á leigumarkaði án þess að það bitni á framboði.

Dregið er úr vægi verðtryggingar og stofnstyrkir til félagslegs húsnæðis auknir.

Stórauknar opinberar fjárfestingar og efla alla innviðauppbyggingu sem skapar störf.

Áfram mætti lengi telja. Það skiptir máli að hafa heildarsýn þegar gengið er til samninga við yfir 100 þúsund launþega. Lífskjör eru nefnilega ekki einungis bundin við krónur og aura. Það skiptir máli hvernig okkur tekst í sameiningu og með samvinnu verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og stjórnvalda að stilla saman strengi svo að Ísland verði sjálfbært samfélag sem byggt er á grunni velferðar og félagslegs

réttlætis. Það er okkar sameiginlega ábyrgð.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs og formaður atvinnuveganefndar.

DEILA