Jafnréttisskóli Sameinuðu þjóðanna á Ísafirði

Frá heimsókn þátttakenda til forseta Íslands að Bessastöðum. ;ynd: unu.gest.

Í dag, 8. apríl,  munu tveir nemendur Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-GEST), Hassan Waddimba frá Úganda og Irma Šiljak frá Bosníu og Herzegóvínu segja frá námi sínu á Íslandi og starfi í þágu jafnréttismála í sínu heimalöndum. Kynningin fer fram í Háskólasetri Vestfjarða/Fjölmenningasetrinu klukkan 15.00. Allir eru velkomnir.

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna stuðlar að jafnrétti og valdeflingu kvenna í þróunarlöndum og fyrrum átakasvæðum. Skólinn býður upp á fimm mánaða diplómanám með áherslu á jafnréttismál í fræðilegu og praktísku samhengi. Flestir nemendur skólans eru sérfræðingar hjá ráðuneytum, sveitastjórnum eða frjálsum félagasamtökum en einnig eru efnilegir nemendur í framhaldsnámi. Skólinn var stofnaður 2009 og frá stofnun hans hafa útskrifast 109 nemendur frá 21 landi. Á þessari önn eru 23 nemendur við nám frá 13 löndum.

Hassan Waddimba er með BS próf í þróunarhagfræði og hefur unnið í þrjú ár fyrir samtök í Úganda sem beita sér fyrir réttindum fatlaðs fólks í austur Afríku. Hassan stofnaði einnig samtök sem vinna að þekkingu og getu samfélaga til að minnka áhrif mengunar plasts í Afríku.

Irma Šiljak lauk BA próf í ensku og ensku bókmenntum og er nú við nám í evrópskum fræðum í háskólanum í Sarajevó, Bosníu. Samhliða námi hefur Irma starfað með frjálsu félagasamtökunum Medica, sem starfa með konum og börnum sem hafa orðið fyrir áföllum í stríðinu í Bosníu eða í kjölfar stríðsins.

DEILA