Ísafjarðarbær: sótt um byggðakvóta eftir úthlutun

Ísafjarðarbæ hafa borist tvö erindi frá útgerðarmönnum í sveitarfélaginu þar sem óskað er eftir því að bátar þeirra fái byggðakvóta. Fiskistofa hefur lokið skiptingu byggðakvóta niður á byggðarlög í sveitarfélaginu og á báta innan hvers byggðarlags. Ekki hafa fengist upplýsingar magn byggðakvóta hvers byggðarlags né úthlutun á hvern bát.

Á síðasta fundi bæjarráðs voru lögð fram tvö erindi um byggðakvóta.

Sótt var um fyrir Ísborg ÍS á Ísafirði. Umsókn hafði verið send inn en ekki þess gætt að skipið væri með veiðileyfi í lok umsóknarfrests. Í erindi fyrirtækisins segir að ekki hafi verið leiðbeint um þýsingu þessa atriðis og „Í ljósi umræðna um að endurtaka eða fá byggðakvótaúthlutun endurskoðaða í Ísafjarðarbæ er óskað eftir því að Ísafjarðarbær beiti sér fyrir því að byggðakvótaúthlutun verði endurupptekin þannig að Ísborg geti fengið hlutfallslegan byggðakvóta.“

Hitt erindið er frá Walvis ehf á Flateyri vegna Eiðs ÍS. Skipið var selt 2015 til Tálknafjarðar en tekið aftir í fyrra til Flateyrar og hafði ekki verið búið að ganga frá skráningu fyrir lok umsóknarfrests þótt róðrar hefðu verið hafnir frá Flateyri.

Bæjarstjóri hefur sent framangreint erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir í bókun um málið í bæjarráði.

 

DEILA