Ísafjarðarbær : ársreikningur 2018 lagður fram

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar og stofnana hans fyrir síðasta ár hefur verið lagður fram í bæjarráði og verður svo ræddur í bæjarstjórn.

Í áritun bæjarstjóra og bæjarstjórnar segir eftirfarandi:

„Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 4.920 milljón króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 4.989 milljónum króna. Rekstrartekjur A-hluta námu um 4.214 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 4.208 milljónum króna.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok var 1.488 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins og stofnana námu um 2.517 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins var 315 stöðugildi í árslok.

Íbúafjöldi í Ísafjarðarbæ 1.janúar2019 var 3.800 og fjölgaði um 93 einstaklinga frá sama tíma fyrra árs.“

Stærsti tekjuliðurinn voru  skatttekjur 2400 milljónir króna, þar af 2 milljarðar króna í útsvar. Þá fengust 890 milljónir króna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hæsti útgjaldaliðurinn var laun og annar starfsmannakostnaður 2.356 milljónir króna. Laun bæjarstjórnar og bæjarstjóra námu um 41,8 milljónum króna 2018 en 43,8 milljónum króna 2017.

Fjármagnskostnaður umfram fjármagnstekjur var 134 milljónir króna.

Skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs og stofnana voru 7.494 milljónir króna um síðustu áramót, þar af lífeyrisskuldbindingar 1.573 milljónir króna, langtímalán 5.001 milljónir króna og  skammtímaskuldir 894 milljónir króna. Bókfærðar eignir í samandregnum ársreikningi voru 8.981 milljónir króna um síðustu áramót.

 

 

DEILA