Herdís Anna : yndislegt að syngja fyrir sitt heimafólk

Herdís Anna Jónasdóttir frá Ísafirði syngur aðalhlutverkið í uppfærslu Íslensku Óperunnar á óperunni La Traviatasem eru á fjölunum í Hörpu þessar vikurnar. Herdís hefur undanfarin ár sungið í Saarbrucken og e að flytjast til Berlínar.

Bæjarins besta hafði samband við Herdísi Önnu og innti hana eftir því hvernig henni fyndist að koma heim frá stórum óperuhúsum í Evrópu og taka þátt í sýningu hér  heima..

Svör hennar fara hér á eftir.

„Það er töluvert ólíkt að vera fastráðin við óperuhús í Þýskalandi og að koma heim og syngja við Íslensku óperuna. Hér heima er óperan með um tvær uppfærslur á ári, sem þýðir að meiri tími og fókus gefst fyrir hverja uppfærslu. Úti eru alltaf margar sýningar í gangi í einu, maður er kannski að syngja í þremur mismunandi óperum og að æfa þá fjórðu samtímis. Allt á mismunandi tungumálum í ofanálag. Það getur auðvitað verið fútt í því, en það getur verið erfiðara að gefa allt sem maður á, mörg kvöld í röð. Þetta hefur því verið dálítill lúxus hér heima, að geta bara einbeitt sér vel að þessu stóra verkefni.

Vinnuferlið hefur verið alveg yndislegt og ótrúlega fagmannlegt, gott fólk í hverju horni. Söngvararnir, kór og hljómsveit eru alveg frábær sem og hljómsveitarstjórinn Bjarni Frímann, hann er ungur en hefur mjög gott vald á hljómsveitinni og er dásamlega músíkalskur. Leikstjórnarteymið kom alla leið frá Kanada, það var hópur fólks sem við héldum hefðu öll unnið saman í fleiri ár, þau voru svo samhent, en sum þeirra voru að vinna þarna saman í fyrsta sinn. Ég fann töluverðan mun á vinnubrögðum þeirra og þess sem ég á að venjast í Þýskalandi. Þar eru leikstjórar dálitlar hetjur og fá svolítið að haga sér eins og þeim sýnist, og ekki alltaf fallega. Hér í Travíötu var ótrúlega mikill kærleikur á milli okkar allra og góð stemmning í hópnum. En við lögðum öll mjög hart að okkur, þetta var mikil og erfið vinna.

Það var líka alveg dásamlegt að fá að vinna með íslenskum kollegum, bæði á sviði og bak við það. Þetta eru allt fagmenn fram í fingurgóma. Og  þó að leikstjórnarteymið væru útlendingar, þá var frábært að geta talað íslensku í vinnunni, og íslenskur húmor er líka dálítið frábrugðinn þeim þýska.

Viðtökurnar hérna hafa svo verið framar björtustu vonum. Upprunalega voru bara planaðar 4 sýningar, en tveimur aukasýningum hefur verið bætt við, enda hefur verið uppselt á allar sýningar, og  nú eru aðeins örfá sæti laus á seinni aukasýninguna þann 14. apríl. Fólk er greinilega mjög áhugasamt um að koma í óperuna og láta heillast af þessu stórkostlega formi. Það er sama sagan úti, það er yfirleitt vel mætt, en sérstaklega ef sýning telst vel heppnuð.“

Herdís Anna Jónasdóttir var svo spurð að því hvað væri framundan hjá henni.

„Ég er nýbúin að losa mig undan föstum samningi við Ríkisleikhúsið í Saarbrücken, hætti þar í fyrrasumar, og er að flytja til Berlínar, bara rétt eftir lokasýninguna hér heima. Það er mjög spennandi að hefja svona nýjan kafla, ég er með ýmislegt á dagskránni, verkefni og tónleika. Svo er ég alltaf á leiðinni til Ísafjarðar að syngja, það skýrist væntanlega fljótlega, en það er alltaf yndislegt að syngja fyrir sitt heimafólk.“

Herdís sendi Bæjarins besta tvær myndir úr sýningunni, með Elmari Gilbertssyni.

DEILA