Herdís Anna Jónasdóttir slær í gegn

Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir  syngur aðalhlutverkið í óperunni La Travíata eftir Verdi sem Íslenska óperan sýnir í Hörpu um þessar mundir. Á laugardaginn var fjórða sýning af sex fyrir fullu húsi.

Sýningin var hreinasta afbragð, bæði söngur og hljóðfæraleikur. Herdís Anna jónasdóttir söng viðamesta hlutverkið, sjálfrar Violettu Valery og skilaði því með miklum sóma. Sýningargestir kunnu vel að meta framlag listamannanna og fengu þeir ítrekað langt og duglegt lófatak í lok atriða. Í sýningarlok var söngvurnum vel fagnað hverjum og einum. Mest var þó aðalsöngvaranum Herdísi Önnu fagnað og ætlaði fagnaðarlátunum seint að linna og í lokin stóðu gestir upp í þakklætisskyni.

Það er ótrúlegt að á Íslandi, þar sem íbúafjöldi er á við litla borg í Evrópu skuli vera til  langur listi af listafólki sem er fyllilega og að eigin verðleikum gjaldgengt í óperuhús og synfóníur hvarvetna í Evrópu. Hlutverkin í óperunni eru mörg en þau eru skipuð velmenntuðum og öflugum söngvurum bæði í kven- og karlaröddum.

Íslenska óperan á heiður skilið fyrir það að yfirhöfuð að ráðast í svo viðamikið verk sem óperan La Traviata er. Hún er ein af helstu perlum óperutónlistarinnar eftir Giuseppe Verdi og var frumsýnd í feneyjum 6. mars 1853.

DEILA