Helgiganga og píslarsaga

Kirkjan í Holti í Önundarfirði. Mynd: kirkjukort.net.

Föstudagurinn langi er mesti sorgardagur kirkjuársins segir á vísindavef Háskóla Íslands og ber helgihald vott um það. Þá minnast kristnir menn píslargöngu Jesú,krossfestingar hans og dauða á krossi, en samkvæmt guðspjöllunum  gerðust þessir atburðir á síðasta föstudag fyrir páska.

Helgiganga og píslarsaga

Helgiganga verður í Önundarfirði og hefst hún kl 10. Lagt verður af stað frá Dalskirkju í Valþjófsdal og gengið í Holt. Boðið verður upp á súpu og brauð í friðarsetrinu í Holti að leiðarlokum.

Í Bolungavík verður lesið úr píslarsögunni kl. 11:00 á hjúkrunarheimilinu Bergi. Allir eru velkomnir.

Í Ísafjarðarkirkju verður upplestur passíusálma og tónlistarflutningur frá kl 13 til kl 15:05. Kór Ísafjarðarkirkju syngur.  Organisti er Tuuli Rähni og prestur sr. Magnús Erlingsson.

Í Þingeyrarprestakalli verður bæði píslarganga og helgiganga:

08:30 – Píslarganga. Viðburðurinn hefst á því að sungnar verða morguntíðir í Þingeyrarkirkju klukkan 08:40 og þeim sem vilja er boðið upp á akstur inn að upphafsstað göngunnar, sem hefst um 09:00.  Gengið verður fyrir botn Dýrafjarðar frá afleggjaranum fyrir neðan Lambadal í Mýrasókn og út á Þingeyri. Gönguleiðin er um það bil 25 km og áætlaður göngutími 5 til 6 klukkustundir. Að göngunni lokinni er þátttakendum boðið upp á fiskisúpu og brauð. Göngustjóri í ár er Þórir Örn Guðmundsson. Þátttökugjald er ekkert.
11:00 – Helgiganga frá bænhúsatóftum á Kirkjubóli að Þingeyrarkirkju. Gangan hefst með morgunsöng við tóftirnar á Kirkjubóli sem taldar eru hafa verið bænhús. Gengið verður þaðan sem leið liggur til Þingeyrarkirkju. Göngueiðin er tæpir 5 km og tekur um það bil 1 klst. Að göngunni lokinni er þátttakendum boðið upp á fiskisúpu og brauð í Stefánsbúð. Þátttökugjald er ekkert og fólk verður aðstoðað við að sækja bíla sína.
Í Patreksfjarðarprestakalli verður Guðsþjónusta í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi kl 14. Ólafur Gestur Rafnsson spilar undir við almennan safnaðarsöng.

 

DEILA