Hafró leggst gegn því að leyfa handfæraveiðar í hrygningarstoppi – vegna 10 fiska

Landssamband smábátaeigenda óskaði nýlega eftir því við Atvinnuvegaráðuneytið að handfæraveiðar yrðu heimilaðar þann tíma sem hingað til allar veiðar hafa verið bannaðar á ákveðnum stórum svæðum innan landhelginnar vegna hrygningar þorsks.  Um þetta gildir reglugerð frá 2005 og er veiðibannið í stórum dráttum allan apríl mánuð ár hvert.

rannsóknir sýna neikvæð áhrif

Ráðuneytið synjaði erindi Landssambands smábátaeigenda og vísaði til neikvæðrar umsagnar  Hafrannsóknarstofnunar. Þar kemur fram að rannsóknir hafi „sýnt að truflun við hrygningu t.d. vegna veiðarfæra getur haft þau áhrif að þorskur fari af hrygningarslóð og snúi ekki þangað aftur.“ Ennfremur segir í greinargerð Hafrannsóknarstofnunar að í ljósi  „nýlegra rannsókna sem sýnt hafa fram á neikvæð áhrif veiða á hrygningaratferli þorsks leggst Hafrannsóknastofnun á móti því að undanskilja handfæraveiðar í reglugerð um friðun hrygningarþorsks.“

ein rannsókn – 10 fiskar

Landssamband smábátaeigenda hefur nú fengið uppgefið hjá Hafrannsóknarstofnun hvaða rannsóknir stofnunin er að vísa til sem sýni að handfæraveiðar trufli hrygningu þorsks.

Það er aðeins ein rannsókn við austurströnd Bandaríkjanna sem Hafrannsóknarstofnun nefnir til. Hún var gerð árið 2009 um grein um rannsóknina var birt í North American Journal of Fisheries Managemen árið 2012. Rannsakað var svæði sem var 4 km x 5,5 km að stærð. Þar voru veiddir 10 þorskar, þeir skornir upp og í þá settir sendar og síðan í sjóinn aftur. Fylgst var með ferðum þorskanna næstu daga með aðstoð sendanna. Netaveiðar voru leyfðar og komust rannsakendur að því að þorskurinn hefði verið kominn í hrygningarham, sem er sérstakt atferli, fyrir veiðarnar og netaveiðarnar hefðu truflað þorskinn í hrygningunni. Niðurstaðan af rannsókninni var sú að netaveiðar gætu haft áhrif til hins verra á hrygningu þorsks.

Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda staðfesti í samtali við Bæjarins besta að þetta væri eina rannsóknin sem Hafrannsóknarstofnun nefndi til stuðnings því að leggjast gegn handfæraveiðum í hrygningarstoppi. Axel vildi benda á að rannsóknin næði til netaveiða en ekki handfæraveiða  og eins næði hún til mjög lítils svæðis og fárra fiska. Hann sagðist hafa fundið aðra rannsókn sem sýndi fram á að fiskur sem hefði verið veiddur og skorinn, eins og gert var í umræddri tilraun, brygðist við á þann hátt sem þar er lýst. Því væri varasamt að fullyrða að viðbrögð þorskins, að fara úr hrygningarham, væri vegna netanna, þau gæru alveg eins verið vegna þess að fiskurinn var veiddur , tekinn upp úr sjó og skorinn upp.

 

 

DEILA