Gleðilegt sumar kæru félagar

Rétt fyrir fyrsta vetrardag í fyrra tók ný forysta við hjá Alþýðusambandinu og félagsmenn lögðu línurnar á þingi ASÍ fyrir komandi tvo vetur. Væntingarnar voru miklar en baráttugleðin sömuleiðis og ágætt að nota tækifærið og horfa yfir veturinn.

Í fyrsta vikupistli mínum sem forseti lagði ég upp með þrjú áhersluatriði: Skattkerfisbreytingar, raunhæfar lausnir á húsnæðisvandanum og baráttuna gegn félagslegum undirboðum. Þessar áherslur voru í takt við niðurstöður þings ASÍ í október sl. Þessi þrjú mál hafa verið rauður þráður í starfi ASÍ í vetur, nefndir voru endurskipulagðar til að vinna að þessum verkefnum, samtöl við stjórnvöld voru þessu marki brennd og einstök aðildarfélög endurómuðu þessar kröfur. Okkur varð ágengt og yfirlýsing stjórnvalda í tenglum við kjarasamninga við verslunar- og verkafólk raungerir þessar kröfur. Nú er það okkar að fylgja þeim eftir og við munum hvergi slá af í því.

Veturinn var á köflum vindasamur og gekk stundum á með stormi. Að starfa í stærstu fjöldahreyfingu landsins og komast að sameiginlegri niðurstöðu um brýnustu úrlausnarefni samfélagsins er risavaxið verkefni. Það væri ekki heiðarlegt af mér að segja að alltaf hefði ríkt logn á ASÍ heimilinu í vetur enda kraftmikið fólk á öllum póstum með sterkar skoðanir og fylgið sér. Það verður hins vegar að segjast að við sem hreyfing stóðumst prófið, við náðum samkomulagi innandyra um helstu línur og töluðum skýrt um sameiginleg hagsmunamál. Ég er afskaplega stolt af þeim félögum sem ég hef unnið náið með í vetur, hvort sem það eru kjörnir fulltrúar eða starfsfólk stéttarfélaganna. Þvílíkt lið!

En þó vetur sé liðinn eru verkefnin ekki farin. Enn sitja nokkrir hópar á almenna markaðnum við samningaborðið og við eigum sömuleiðis eftir að semja við ríki og sveitarfélög fyrir þá félagsmenn innan ASÍ sem starfa undir þeim samningum. Allir góðir straumar fylgi þeim samninganefndum sem nú eru starfandi.

Verkalýðshreyfingin er lýðræðishreyfing og aldrei sterkari en grasrótin gefur tilefni til. Á baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí hafa félagar um allt land tækifæri til að hittast, meta stöðuna, brýna sig og aðra og viðhalda baráttustuði. 32 viðburðir er skipulagðir um allt land og ég hvet alla sem hafa áhuga á bættum kjörum og jöfnuði að taka þátt.

Góða helgi,

Drífa Snædal

forseti ASÍ

DEILA