Fjölmenni í Dýrafjarðargöngum þegar slegið var í gegn

Karlakórinn Ernir syngur lagið að slá í gegn.

Mikið fjölmenni var samankomið í Dýrafjarðargöngum þegar slegið var í gegn um kl 15 í dag. Ætla má að um 300 manns hafi verið við athöfnina. Samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði leið sína vestur ásamt föruneyti og flutti ávarp. Hreinn Haraldsson, fyrrverandi vegamálastjóri var einnig viðstaddur. Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra og alþingimennirnir Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Guðjón Brjánsson voru einnig á staðnum og ef til vill fleiri en ekki var gott að fá heildaryfirsýn yfir þá sem voru viðstaddir. Þarna voru sveitarstjórar og bæjarstjórar á Vestfjörðum og sveitarstjórnarmenn.

Fram kom í máli verktakans að verkið hafi gengið sérstaklega vel og reyndar svo vel að slegin hefðu verið Íslandsmet í afköstum á hverri viku bæði í sprengingum og greftri.

Karlakórinn Ernir söng Stuðmannalagið að slá í gegn með nýjum texta eftir kórfélagann Viðar Konráðsson við góðar undirtektir viðstaddra.

Athöfnin var á vegum verktakanna, tékkneska fyrirtækinu Metrostar og Suðurverk ehf. Var hún vel skipulögð og gekk að vonum. Gestum var síðan boðið í veglegar veitingar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra flutti ávarp.

 

 

Einar K. Guðfinnsson, fyrrv. forseti Alþingis og Angantýr Valur Jónasson, fyrrv sparisjóðsstjóri Þingeyri

 

Gamlir Mýrhreppingar frá Felli og Mýrum sjá fram á að gamall draumur rætist.
Guðmundur M. Kristjánsson, hafarstjóri Ísafirði og lilja Rafney Magnúsdóttir alþm.
DEILA