Fiskeldi fjórfaldast á 10 árum – tekjur 19 milljarðar króna

Mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi á Íslandi undanfarin ár og heildarframleiðslumagn hefur nær fjórfaldast á síðustu tíu árum. Framleidd voru rúm 19 þúsund tonn árið 2018 sem reyndar var samdráttur um tæp 1,8 þúsund tonn samanborið við árið 2017. Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu rúmum 19 milljörðum árið 2017 og hafa aukist mikið á undanförnum árum.

Þetta kemur fram í nýlegri frétt frá Hagstofu Íslands.

Eldistegundir og fyrirtæki
Magn slátraðs eldisfisks hefur næstum fjórfaldast á síðustu 10 árum og nam rúmum 19 þúsund tonnum árið 2018. Mest aukning hefur orðið í laxeldi sem fer úr 292 tonnum árið 2008 í tæp 13,5 þúsund tonn árið 2018. Bleikjueldi hefur verið stöðugra yfir tímabilið en tæpum 5 þúsund tonnum var slátrað á síðasta ári samanborið við 3,1 þúsund tonn árið 2008. Eldi á regnbogasilungi jókst mikið á tímabilinu og náði hámarki árið 2017 þegar 4,6 þúsund tonnum var slátrað en árið 2018 nam framleiðslan einungis 295 tonnum.

435 starfmenn og 19,3 milljarðar króna í tekjur

Fjöldi launþega hjá fiskeldisfyrirtækjum hefur aukist mikið á síðustu árum og voru um 435 manns árið 2017. Þeim hafði fjölgaði um 271 frá 2008. þegar launþegar voru 164. Launakostnaður fyrirtækjanna var 3,7 milljarðar króna árið 2017.

Tekjur fyrirtækja í fiskeldi námu 19,3 milljörðum árið 2017 og hafa ríflega tvöfaldast frá árinu 2015. Þá hefur eiginfjárstaða atvinnugreinarinnar styrkst umtalsvert síðustu ár samhliða því sem lagt hefur verið í miklar fjárfestingar. Varanlegur rekstrarfjármunir í lok árs 2017 voru 20,6 milljarðar króna en aðeins 2 milljarðar króna tíu árum fyrr. Þrátt fyrir miklar fjárfestingar var eiginfjárstaðan jákvæð um 22,2 milljarða króna í lok árs 2017 en var aðeins 143 milljónir í árslok 2008. Eiginfjárhlutfall upp á 51% er fátítt í atvinnugreinum og verður aðeins vegna þess að fjárfestar telja fiskeldið vera arðvænlegt.

Útflutningsverðmæti og samanburður við Evrópuríki
Heildarútflutningsverðmæti eldisfisks hefur nær sjöfaldast á síðustu 10 árum, úr tæpum tveim milljörðum króna árið 2008 í 13,7 milljarða króna árið 2017. Samkvæmt bráðabirgðatölum utanríkisverslunar fyrir árið 2018 varð útflutningsverðmætið 13 milljarðar króna á síðasta ári, samkvæmt því sem fram kemur í frétt Hagstofunnar. Af því var verðmæti eldislaxsins 8,8 milljarðar króna og silungur 3,4 milljarðar króna.

 

DEILA