Dimmalimm gengur vel -3 aukasýningar

Sýningar á leikritinu Dimmalimm í Þjóðleikshúsinu ganga vonum framar. Elfar Logi Hannesson sagði í samtali við Bæjarins besta að í fyrstu hefði verið ákveðið að hafa þrjár sýningar og síðan verið bætt við og nú væri búið að bæta við sýningum  öðru sinni og það þremur sýningum.  Því til viðbótar yrðu tvær sýningar á Þingeyri um páskana þar sem Dimmalimm yrði sýnt ásamt Karíus og Baktus sem íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri setur upp.

Segja má að Bílddælingar standi að Dimmalimm á alla vegu. Höfundurinn Muggur var frá Bíldudal, Elfar Logi og aðrir sem koma að sýningunni þeir Björn Thoroddsen, tónlist og Þröstur Leó Gunnarsson, leikgerð eru allir Bíldælingar. Með þeim starfar í Þjóðleikshúsinu Magnús Sigurðsson, ljósamaður frá Patreksfirði.

Elfar Logi sagði að stefnt væri að því að fara með Dimmalimm um allt land og leikritið yrði sýnt meðan aðsókn væri svo góð sem raun ber vitni.

DEILA