Bolungavík: rekstrarniðurstaða jákvæð um 52 milljónir króna

Ársreikningur 2018 fyrir Bolungarvíkurkaupstað hefur verið lagður fram í bæjarstjórn til fyrri umræðu. Reksturinn varð jákvæður um 52 milljónir króna eða um 4% af tekjum og er þá átt við bæði A og B hluta.

Rekstrartekjurnar voru 1.236 milljónir króna á árinu. Framlag úr Jöfnunarsjóði nam 302 milljónum króna eða um 1/4 hluti teknanna. Útsvör voru 551 milljónir króna og fasteignagjöld 53 milljónir krónur. Tekjur hafnarsjóðs voru 101 milljónir króna og vatnsveitan skilaði 35 milljónum króna.

Helstu útgjaldaliðir voru laun og launatengd gjöld 622 milljónir króna. Laun bæjarstjórnar og bæjarstjóra námu 21,6 milljónum króna.

Fjármagnsgjöld voru 90,6 milljónir króna og á móti þeim komu fjármagnstekjur 34 milljónir króna. nettókostnaður sveitarfélagsins af fjármagni var því 56 milljónir króna.

Framlag til Félagsheimilis Bolungavíkur var 30 milljónir króna

Fjárfest var á árinu fyrir 220 milljónir króna.  Heildarskuldir eru 1.737 milljónir króna og eru þær 101% af tekjum miðað við reglur frá 2018. Hefur hlutfallið lækkað úr 121,2% á árinu 2014.

DEILA