Uppsetning nýs pípuorgels í Hólskirkju

Á mynd eru Margrét Erlingsdóttir, rafvirki, Björgvin Tómasson, orgelsmiður, Jóhann Hallur Jónsson, húsgagnasmiður, Einar Jónatansson, sóknarnefndarformaður, og Guðrún B. Magnúsdóttir, organisti. Mynd Helgi Hjálmtýsson.

Björgvin Tómasson orgelsmiður vinnur ásamt aðstoðarfólki sínu að uppsetningunni en orgelið sem Björgvin hefur smíðað fyrir kirkjuna er níu radda pípuorgel og er það fertugasta í röðinni sem hann smíðar.

Björgvin rekur Orgelsmiðju Björgvins Tómassonar á Stokkseyri og honum til aðstoðar eru Margrét Erlingsdóttir rafvirki og Jóhann Hallur Jónsson húsgagnasmiður.

Í tilefni af aldarafmæli kirkjunnar árið 2008 var stofnaður orgelsjóður með það að markmiði að safna fyrir nýju pípuorgeli. Kristný Pálmadóttir stofnaði orgelsjóðinn 5. desember 2008 en kirkjan var vígð 7. desember 1908. Kristný söng í kirkjukórnum í áratugi en hún lést árið 2012.

„Sjóðnum hafa borist ótal gjafir frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum. Bolvíkingafélagið í Reykjavík og brottfluttir Bolvíkingar hafa einnig sýnt söfnuninni mikinn velvilja og gefið háar fjárhæðir, það má því segja að Bolvíkingar hafi með samstilltu átaki fjármagnað að fullu og gefið Hólskirkju nýtt pípuorgel“, segir Einar Jónatansson sóknarnefndarformaður.

Árið 2017 var söfnuninni fyrir orgelinu lokið og í október var undirritaður smíðasamningur við Björgvin. Í samningnum var gert ráð fyrir að orgelið yrði vígt nú á aðventunni á 110 ára afmæli kirkjunnar en af óviðráðanlegum orsökum seinkaði afhendingu um nokkra mánuði.

Gamla orgelið sem var fyrir í kirkjunni gáfu Bolvíkingar í tilefni af 50 ára vígsluafmæli hennar en það var vígt við hátíðarmessu 17. júní árið 1960 og var því notað samfellt í 58 ár. Nokkur samskonar orgel frá Kemper & Sohn voru í kirkjum á Íslandi og var orgelið í Hólskirkju það síðasta af þeim sem var í notkun.

DEILA