Sameining tveggja prestakalla

Hólmavíkurkirkja. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Föstudaginn 22. febrúar var haldinn sameiginlegur fundur sóknarnefnda í Hólmavíkurprestakalli og Reykhólaprestakalli til að ræða framkomnar tillögur um sameiningu prestakallanna. Fundurinn var haldinn í Grunnskólanum á Reykhólum. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir var með framsögu á fundinum. Þar kynnti hún hugmyndir biskupafundar um að sameina þessi tvö prestaköll. Taldi biskup að sameining prestakallanna og aukið samstarf prestanna á Reykhólum og Hólmavík myndi stuðla að bættu kirkju- og safnaðarstarfi á svæðinu.

Ágætlega var tekið í tillögur biskups og var samþykkt eftirfarandi ályktun:  Sameiginlegur fundur sóknanefnda í Hólmavíkurprestakalli og Reykhólaprestakalli, haldinn á bókasafni Reykhólaskóla þann 22. febrúar 2019, skorar er á kirkjuyfirvöld að standa við að þá tillögu að á Reykhólum starfi prestur í fullu starfi með búsetu og húsnæði við hæfi. Fundurinn styður sameiningartilögu, sem ætlað er að styðja við samstarf á svæðinnu, enda verði tryggt að tveir prestar verði starfandi á Hólmavík og Reykhólum.

Ekki líst samt öllum vel á þessar sameiningarhugmyndir.  Þannig hefur sóknarnefndin í Flatey ályktað að hún sé mótfallin þeim og komi til þeirra muni hún óska eftir því að Flateyjarsókn verði tekin undan Reykhólum og sameinuð Stykkishólmsprestakalli.

Kirkjuþing kemur saman laugardaginn 2. mars og mun þá umrædd tillaga væntanlega verða tekin fyrir.  Fulltrúar Vestfirðinga á kirkjuþingi eru þær sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir sóknarprestur á Þingeyri og Árný Herbertsdóttir kennari á Ísafirði.

DEILA