Neytendasamtökin veita leigjendaaðstoð

Í dag kom út árskýrsla leigjendaaðstoðar Neytendasamtakanna fyrir árið 2018.

Þar er rifjað upp að eftir hrun hafi verið tekin ákvörðun um að taka upp aðstoð við leigjendur þótt það mál félli utan við verksvið Neytendasamtakanna.  Vorið 2011 var gerður
samningur við velferðarráðuneytið þess efnis að Neytendasamtökin tækju að sér
rekstur sérstakrar leigjendaaðstoðar. Samningurinn var gerður til eins árs og
hefur verið endurnýjaður á hverju ári eftir það. Frá því að Leigjendaaðstoðin hóf starfsemi sína hafa henni borist yfir 13.000 erindi. Á síðasta ári urðu erindin 1.095.  Við aðstoðina unni þrír starfsmenn á síðasta ári samhliða öðrum störfum hjá samtökunum.

Starfssemi Leigjendaaðstoðarinnar felur fyrst og fremst í sér aðstoð við þá
leigjendur sem að til hennar leita með fyrirspurnir eða ágreiningsmál er lúta að
húsaleigu. Leigjendur geta því fengið svör við spurningum, upplýsingar um
réttarstöðu, ráðgjöf í ágreiningsmálum, aðstoð í samskiptum við leigusala sem
og upplýsingar og aðstoð við að leita annarra úrræða.

Þá sinnir Leigjendaaðstoðin fleiri verkefnum, eins og rekstri heimasíðunnar
www.leigjendur.is þar sem leigjendur geta fengið svör við flestum þeim
spurningum sem á þeim brenna. Auk þess hefur Leigjendaaðstoðin sent frá sér
fjölmörg erindi vegna hagsmunabaráttu leigjenda og gert umsagnir við lagafrumvörp en stóran hluta þeirra má sjá á heimasíðu Leigjendaaðstoðarinnar.

Árið 2018 annaðist Leigjendaaðstoðin milligöngu í 22 málum. Flest málanna lutu
að endurgreiðslu á tryggingarfé, alls 10 mál. Öll fóru þau fyrir kærunefnd
húsamála sem úrskurðaði leigjendum í hag að öllu leyti eða að hluta. Í þeim
tryggingarmálum þar sem að Leigjendaaðstoðin annaðist millgöngu stafaði
ágreiningurinn fyrst og fremst af ástandi húsnæðis við skil. Þar kom oftast til
skoðunnar hvort að um eðlileg slit væru að ræða eða hvort að bótaskylt tjón hafi
orðið á leiguhúsnæði í umráðum leigjanda.

 

 

 

 

DEILA