Mygla í Grunnskólanum á Ísafirði

Mygla fannst í tveimur stofum í Grunnskólanum á  Ísafirði á þriðjudaginn í síðustu viku. Féll skólahald niður á miðvikudaginn í fjórum yngstu bekkjunum. Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri segir að ákveðið hafi verið að grípa til ýtrustu varúðarráðstafana og loka allri álmunni meðan verið er að kanna allar stofunar og segir hann að það mun itaka 2 – 3 vikur. Á meðan mun kennsla fara fram í öðrum stofum.

„Kennarar og starfsfólk hafa lyft grettistaki í að finna lausnir og færa til kennslu, enda einvalalið sem starfar í GÍ.“ segir bæjarstjórinn.

„Við lögðum strax áherslu á að koma greinargóðum upplýsingum til foreldra, nemenda og starfsfólks. Allir hafa tekið þessu tíðindum af yfirvegun. Ég er jafnframt mjög stoltur af fumlausum og hárréttum viðbrögðum starfsfólks Ísafjarðarbæjar um leið og málið kom upp.“

Strax á þriðjudaginn sendi bæjarstjórinn eftirfarandi póst til foreldra og forráðamanna barnanna:

„Ágætu foreldrar/forráðamenn
Í gær kom í ljós að sýni sem tekin voru úr tveimur stofum í neðstu álmu Grunnskólans á Ísafirði (gamli gagnfræðiskólinn) reyndust mygluð. Í dag stendur yfir sýnataka úr öllum skólastofum í þessari álmu.
Áhrif myglusvepps á fólk eru mjög misjöfn, en til að gæta fyllstu varúðar hefur verið ákveðið að loka álmunni alfarið á meðan sýnin eru til rannsóknar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þetta mun taka um 2-3 vikur og eins og gefur að skilja veldur þetta talsverðum tímabundnum breytingum þar sem færa þarf hátt á annað hundrað barna með engum fyrirvara.
Kennsla fyrir 1. – 4. bekk fellur því niður á morgun á meðan verið er að undirbúa nýja kennsluaðstöðu fyrir börnin. Að öllum líkindum mun okkur takast að hýsa þau í öðrum stofum skólans og í aðstöðu okkar á Austurvegi 9 (Dægradvöl, félagsmiðstöð), en nánari upplýsinga um flutningana er að vænta á morgun, miðvikudag. Dægradvöl verður opin frá og með klukkan 13 á morgun.
Grunnskólinn og Ísafjarðarbær vinna náið með Tækniþjónustu Vestfjarða, Verkfræðistofunni Eflu og Náttúrufræðistofnun Íslands að úrlausn málsins, en á þessum stöðum starfar allt helsta fagfólk landsins í þessum fræðum.
Eins og áður segir eru áhrif myglusvepps á fólk mjög misjöfn, auk þess sem tegundir myglusvepps eru margar. Skaðlegasta gerðin, sem oft er nefnd svartmygla, fannst ekki í þessum sýnum en engu að síður eru þarna tegundir sem geta valdið einkennum, sérstaklega hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir. Skólahjúkrunarfræðingur, Helena Hrund Jónsdóttir (skolahjukrun@isafjordur.is) verður tengiliður starfsfólks GÍ og foreldra nemenda við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða vegna spurninga sem fólk kann að hafa um möguleg einkenni.
Þegar niðurstöður hafa borist úr sýnum verður haldinn upplýsingafundur með foreldrum barna í 1. – 4. bekk þar sem umfang vandans verður kynnt og til hvaða aðgerða þarf að grípa.“

 

DEILA