Landvernd: massíf eyðilegging á víðernum

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar.

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar segir að tengipunktur í Djúpinu sé ekki á aðalskipulagi, ekki á 10 ára kerfisáætlun Landsnets, né á þriggja ára framkvæmdaáætlun Landsnets. Ef tengivirkið yrði samt byggt yrði það á kostnað almennra raforkunotenda. Þá segir Auður að hvalárvirkjun myndi fylgja massíf eyðilegging á einstökum víðernum á heimsvísu.

Svör Auðar í heild sinni:

 

„Í skýrslu Landsnets er unnið út frá því að settur verði upp nýr tengipunktur í Djúpinu.  Sá tengipunktur er ekki á aðalskipulagi og ekki í kerfisáætlun Landsnets til 10 ára eða á 3ja ára framkvæmdaáætlun Landsnets.  Ef þetta tengivirki yrði byggt, væri það gert á kostnað Landsnets og þar með almennra raforkunotenda.  Með því væru almennir raforkunotendur að greiða niður einkaframkvæmd HS orku og leggja þar með til fjármagn inn í rekstur einkafyrirtækis. Það er því óraunhæft að gera úttekt á áhrifum Hvalárvirkjunar út frá því að þessi tengipunktur sé settur upp.

Þrátt fyrir að almannafé yrði notað til þess að greiða niður einkaframkvæmd HS orku og farið yrði í massíva eyðileggingu á einstökum víðernum á heimsvísu eins og HS orka vill gera myndi virkjunin eingöngu fækka straumleysismínútum á vestfjörðum úr 164 í 82 á ári.  Þetta er ekki mikill ávinningur fyrir Vestfirðinga.  Fyrir raforkuöryggi á Vesfjörðum og til þess að fara vel með almannafé er mun nærtækara að grafa bilanagjörnustu línurnar í jörð og tryggja tafarlausan flutning yfir á varaafl.“

DEILA