Sameining prestakalla

Kirkjuþing, sem er æðsta valdastofnun Þjóðkirkjunnar, kom saman til fundar þann 2. og 3. mars.  Samþykktar voru tillögur biskupafundar um sameiningu prestakalla bæði í Austurlandsprófastsdæmi og Vestfjarðaprófastsdæmi.

Á Vestfjörðum verða Hólmavíkurprestakall og Reykhólaprestakall sameinuð í eitt prestakall sem mun verða kallað Breiðafjarðar- og Strandaprestakall.  Sóknarprestur í hinu nýja prestakalli mun verða sr. Sigríður Óladóttir, sem undanfarin ár hefur verið sóknarprestur á Hólmavík.  Stefnt er að því að auglýsa eftir nýjum presti á Reykhólum.  Verður það vonandi gert nú í sumar.  Í athugun er að reisa nýtt prestssetur á Reykhólum en gamli bústaðurinn mun illa skemmdur sökum raka og myglu.

Í greinargerð með tillögunum kemur fram að tillögurnar séu hluti af stefnu biskupafundar um nýskipan prestakalla á landsvísu.  Í þeirri stefnu felst það að horfið verði frá einmenningsprestaköllum, þar sem því verði við komið.  Af þessu má draga þá ályktun að innan tíðar verði prestaköllin fjögur á norðanverðum Vestfjörðum sameinuð í eitt prestakall.

DEILA