Hvalveiðar hafa áhrif á stærð fiskistofna

Fyrir skömmu, í janúar 2019,  gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Í niðurstöðukafla skýrslunnar kom setning sem mikið fjaðrafok varð út af.

Ef stofnar hrefnu og langreyðar væru 40% minni, gæti verðmæti afla Íslendinga aukist um á annan tug milljarða króna á ári.

Hins vegar segir í skýrslunni að hagnaður af hvalaskoðun og hvalveiðum hefur verið lítill á síðustu árum. Með öðrum orðum er það meginniðurstaðan af athugun málsins að efnahagslegur áhrifin af hvalveiðum myndu skila sér mest í stækkandi fiskistofnum í þorski, ýsu og loðnu sem aftur skiluðu meiri tekjum í þjóðarbúið.

 

Þetta fór ekki vel í náttúrurverndarsamtök og aðra sem eru á móti hvalveiðum. Landvernd, hafði auðvitað skoðun á málinu og stjórn Landverndar krafðist þess að skýrslan yrði dregin til baka með þeim rökum að útreikningarnir væri af vistfræðilegum toga og utan fagsviðs skýrsluhöfundar, auk þess se forsendur útreikningsins væru orðnar úreltar. Andri Snær Magnason, fyrrverandi forsetaframbjóðandi sagði skýrsluna fantasíu og formaður Hvalaskoðunarsamtaka Íslands sagði skýrsluna vera eins og Morfísverkefni þar sem niðurstaðan hefði verið gefin fyrirfram.

En vísindin segja þetta

Viðbrögðin úr þessari átt mótuðust af því hvort niðurstöðurnar samrýmdust fyrirframgefinni skoðun. Þeir sem eru búnir að taka afstöðu gegn hvalveiðum brugðust ókvæða við, þar sem skýrslan fær rök fyrir áframhaldandi veiðum.

Það sem kannski truflaði andstæðinga hvalveiða hvað mest er að rökin eru vísindaleg, komin frá vísindamönnum sem leggja sín spil á borðið. Þeir segja einfaldlega eitthvað á þessa leið: að svo miklu leyti sem þekking okkar nær þá hefur stærð hvalastofna áhrif á stærð fiskistofna vegna afráns hvalanna. Minni hvalastofnar þýðir að fiskistofnar munu styrkjast. Gísli Víkingsson, helsti sérfræðingur Hafrannsóknarstofnunar sagði í sjónvarpsviðtali einmitt í fjölmiðlafárinu sem varð í janúar að þetta væri niðurstaðan en sagðist ekki treysta sér til að fullyrða um hve mikið fiskistofnar myndu stækka vegna minni hvalastofna.

Rannsóknirnar eru sem sé ekki nægilega margar og ýtarlegar til þess að mat á ávinningnum. Þar með var Gísli ekki tilbúinn til þess að samþykkja mat skýrsluhöfunar um að verðmæti fiskafla Íslendinga gæti aukist um á annan tug milljarða króna á ári.

Fyrri skýrslur

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann sambærilega skýrslu árið 2010. Þá var annar skýrsluhöfundur.

Niðurstaðan um þetta atriði er athyglisverð í ljósi hávaðans núna :

„Miðað við forsendur um afrán langreyðar á loðnu og afrán hrefnu á þorski, ýsu og loðnu væri hægt að stækka þessa þrjá nytjastofna umtalsvert með því að veiða 150 langreyðar og 150 hrefnur á hverju ári. Til lengri tíma litið gæti verið hægt að veiða um 2.200 tonnum meira af þorski á hverju ári, 4.900 tonn af ýsu og 13.800 tonn af loðnu. Núvirtur hagnaður af þessum aukna afla gæti numið um 12,1 milljarði kr. Virðisauki af þessum veiðum gæti þó orðið mun meiri.“

Ef hins vegar yrði stefnt að því að minnka þessa hvalastofna niður í 80% af áætluðu burðarþoli, þ.e. 80% af núverandi stærð þeirra yrði útkoman önnur. Til þess að ná því þyrfti að veiða um 600 hrefnur og 250 langreyðar á ári.  Stofnar þorsks, ýsu og loðnu vaxa fyrir vikið hraðar en áður og „mætti eftir að jafnstöðu er náð við 80% af núverandi stofnstærð auka veiðar á þorski á hverju ári um 11.300 tonn, veiðar af ýsu um 43 21.400 tonn og veiðar af loðnu um 44.500 tonn. Hagnaður af þessum viðbótarafla gæti numið um 4,6 milljörðum kr. á ári á verðlagi dagsins í dag.“ segir í skýrslunni.

Þriðji möguleikinn er svo að minnka hvalastofnana (langreyður og hrefna)  niður í 60% af þáverandi stofnstærð myndi ávinningurinn verða enn meiri eða 13,3 milljarðar króna á ári.

Lokaorðin í skýrslunni frá 2010 eru þessi:

Að því gefnu að hvalir éti eitthvað úr þeim fiskistofnum sem Íslendingar nýta, verður þó tvímælalaust að ætla að með því að stunda hvalveiðar, sem ekki stefna viðkomandi hvalastofnum í hættu, megi auka þann hagnað sem hafa má af veiðum á þeim fiskistofnum.

Rannsóknir

þessar niðurstöður úr tveimur skýrslum eru tilkomnar vegna rannsókna sem hafa verið gerðar. Báðar voru gerðar 1997. Sú fyrri var um afrán hvala á Íslandsmiðum  (Gísli Víkingsson og Jóhann Sigurjónsson) og þá seinni gerðu  Gunnar Stefánsson og fleiri og var frumathugun á samspili hrefnu, langreyðar og hnúfubaks, og hugsanlegum áhrifum á afrakstursgetu þorsks, loðnu og rækju við Ísland. Síðan hafa bæst við upplýsingar úr rannsóknum á hrefnu sem hófust 2003. Haft var samband við Hafrannsóknarstofnun við gerð skýrslunnar núna og þannig byggt á nýjustu þekkingu stofnunarinnar.

Ályktanir í samræmi við rannsóknir

Það verður ekki séð annað en að ályktanir skýrsluhöfundar nún í jan 2019 séu í samræmi við þau gögn sem fyrir liggja og svipuð og var í fyrri skýrslunni 2010. Þannig eru áhrif hvalveiðanna (hrefna og langreyður) talin geta aukið fiskafla um allt að 200 þúsund tonn á ári. Þorskaflinn gæti þá aukist um 34.000 tonn, ýsuaflinn um 42.000 tonn og síld um 55.000 tonn. Loðnuaflinn gæti aukist um 53.000 tonn og kolmunnaafli um 34.000 tonn.

Til þess að fá betra mat þarf meiri rannsóknir og ef til vill leiða þær annað í ljós, en umræðan hverju sinni verður að grundvallast á því sem best er vitað á hverjum tíma. Þeir sem eru á móti hvalveiðum verða að beygja sig undir vísindin og þekkinguna.

Kristinn H. Gunnarsson

 

DEILA