Hornstrandir: fulltrúi landeigenda telur samráðið hafa verið fullnægjandi

Ingvi Stígsson.

Ingvi Stígsson, einn af þremur fulltrúum landeigenda í endurskoðun á reglum um umferð og dvöl í friðlandinu á Hornströndum, telur að samráðið hafi verið nægilegt og að landeigendur hafi getað fylgst með starfinu og  átt þess kost að koma á framfæri sínum áherslum og athugasemdum.

Ingvi segir að fjölmennir stefnumótandi opnir fundir hafi verið haldnir bæði á Ísafirði og í Reykjavík og síðan hafi verið send út drög og þá gefinn nokkurra vikna frestur til þess að senda inn athugasemdir.

Aðspurður um hvernig samráði fulltrúa landeigenda hafi verið háttað við aðra landeigendur segir Ingvi að sendur hafi verið póstur á facebook síðu átthagafélaganna og því til viðbótar hafi verið sendur póstur á útsendingarlista félaganna. Telur Ingvi að ljóst hefði mátt vera þeim sem vildu fylgjast með hvað var verið að leggja til.

Þá sagði Ingvi Stígsson að endanlegar reglur hefðu vissulega verið að einhverju leyti málamiðlun en það hefði ekki verið ágreiningur um niðurstöðuna.

Aðrir fulltrúar landeigenda voru Erling Ásgeirsson og Matthildur Guðmundsdóttir.

DEILA