Heiður Hallgrímsdóttir sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Keppendur í stóru upplestrarkeppninni. Myndir: Sveinfríður Olga Veturliðadóttir.

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Tíu nemendur í 7. bekk frá fjórum skólum á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot og ljóð, en þessir nemendur höfðu verið valdir sem fulltrúar sinna skóla.

Fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði lásu þau Guðrún Eva Bjarkadóttir, Guðrún Helga Sigurðardóttir, Hákon Ari Heimisson, Heiður Hallgrímsdóttir, Helgi Rafn Hermannsson og Unnur Guðfinna Daníelsdóttir. Frá Grunnskólanum í Bolungarvík komu Klara Líf Martin og Kristinn Hallur Jónsson.  Frá Grunnskólanum á Þingeyri var Ástvaldur Mateusz Kristjánsson, en Bæjarins besta hefur ekki tekist að fá nafn tíunda keppandans.

Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir, Dagný Annasdóttir og Dagný Arnalds. Framkvæmd keppninnar og kynnir var í höndum Guðrúnar Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Ávörp fluttu þeir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Baldur Sigurðsson, formaður dómnefndar. Mariann Rähni frá Grunnskóla Bolungarvíkur kynnti skáld keppninnar, en hún hafnaði í 3. sæti keppninnar í fyrra.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að Heiður Hallgrímsdóttir sigraði, Hákon Ari Heimisson hafnaði í 2. sæti og Guðrún Eva Bjarkadóttir í því 3., öll úr Grunnskólanum á Ísafirði. Aukaverðlaun fyrir framúrskarandi flutning á Guttavísum hlaut Kristinn Hallur Jónsson frá Grunnskólanum í Bolungarvík.

Vinningshafar ásamt formanni dómnefndar og umsjónarkennurum sínum.
DEILA