Gjaldþroti afstýrt :West Seafood greiddi

West Seafood greiddi í gær á síðustu stundu kröfu frá ÍS 47 ehf og náði því að afstýra því að fyrirtækið yrði úrskurðað gjaldþrota. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta var krafan um 10 milljónir króna. Gísli Jón Kristjánsson, útgerðarmaður staðfesti í samtali við blaðið að skuldin hefði verið greidd.

Aðspurður  um hvað væri næst sagði Gísli Jón  að í gildi væri samningur, svokallaður byggðafestursamningur, og samkvæmt honum fengi útgerð hans 80 þorskígildistonn og næst væri að veiða upp í skuldbindningar samningsins. West Seafood ber að leggja til 80 þorskígildistonn á móti afla þannig að samtals færi 160 þorskígildistonn til fiskvinnslunnar á Flateyri.

West Seafood skuldar allmörgum fyrirtækjum á Vestfjörðum og nemur samanlögð skuldin tugum milljóna króna. En þau fyrirtæki höfðu ekki óskað eftir gjaldþrotaskiptum til þess að ganga á eftir greiðslu.

DEILA