Einar K.: Alvarlegar athugasemdir við stöðu Hafrannsóknarstofnunar

Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnssosn, stjórnarformaður Landssambands fiskeldisstöðva segist gera alvarlegustu athugasemdirnar við þau ákvæði frumvarps um fiskeldi að Hafrannsóknartofnun verði bæði í senn vísindastofnun og hafi stjórnsýsluvald. Þar með verða tillögur stofnunarinnar einnig ákvarðanir.

Elilegast telur Einar K. að viðhafa sama fyrirkomulag og er við ákvörðun um veiðar úr nytjastofnun, þar sem Hafrannsóknarstofnun leggur tillögu fyrir ráðherra sem síðan tekur ákvörðun. Þar með verði skýr skil milli stjórnsýsluþáttar og vísindaráðgjafarinnar.

Svör Einars K. Guðfinnssonar:

„Frumvarpið ber það með sér að það er tilraun til þess að sætta sjónarmið. Það sér maður ekki síst í því sem hefur breyst frá upprunalegu drögunum sem voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Sumt hefur tekist vel eða svo viðunandi er, en annað miður.

 

Frá mínum sjónarhóli er stærsta atriðið í þessu frumvarpi og það sem hefur mest áhrif til frambúðar, tillagan um að lögfesta áhættumatið. Eitt atriðið í sambandi við áhættumatið lýtur að forsendum þess og það er vitaskuld atriði sem við þurfum að ræða. Í því sambandi finnst mér mikilvægt að í frumvarpinu er kveðið á um í áhættumati skuli tekið tillit til mótvægisaðgerða og að fyrir liggi mismunandi valkostir, allt eftir því hvaða mótvægisaðgerðir séu teknir með inní reikningsdæmið. Það er sannarlega til bóta.

 

En það er stjórnsýslan í kring um þetta sem ég geri alvarlegastar athugasemdirnar við. Eins og frumvarpið er úr garði gert þá má segja að Hafrannsóknastofnun verði í senn vísindastofnun og hafi stjórnsýsluvald. Tillögur hennar verða í rauninni ákvarðanir. Það finnst mér ekki geta gengið. Þarna eiga að vera skýr skil á milli. Hafrannsóknastofnuninni er enginn greiði gerður með því að fela henni allt þetta vald.

 

Eðlilegast hefði verið einfaldlega að nýta þá áratugareynslu sem við höfum annars vegar af stofnstærðarmati Hafrannsóknastofnunarinnar og hins vegar af ákvörðun um aflamark. Í því tilviki eru tillögur lagðar fyrir ráðherrann sem tekur svo ákvörðunina. Þar eru sem sagt skýr skil á milli stjórnsýsluþáttarins og vísindaráðgjafarinnar. En svo sanngirni sé gætt þá er það auðvitað til bóta að það séu kynntir til sögunnar mismunandi valkostir, þannig að við sjáum að hver þeirra leiðir til mikillar framleiðslu.

 

Í þessu frumvarpi er grunntónninn opin stjórnsýsla. Það eru gerðar miklar kröfur til fyrirtækjanna um opið aðgengi að upplýsingum úr rekstrinum. Mér er til efs að nokkur önnur dæmi þekkist um slíkt í öðrum rekstri. Það er athyglisvert að greinin sjálf hefur haft frumkvæði að því að gera slíkar upplýsingar aðgengilegar. Þessu er öðruvísi farið sums staðar annars staðar, eins og nýleg dæmi sanna. Þar er meira að segja borið við upplýsingalögum, til að koma í veg fyrir að sjálfsagðar og eðlilegar upplýsingar, eins og til dæmis um fiskirækt í ám og vötnum, séu gerðar aðgengilegar. Þar er svo langt til seilst að þessar sjálfsögðu upplýsingar eru gerðar  að eins konar ríkisleyndarmáli, sem enginn hefur aðgang að nema innvígðir og innmúraðir.

Þetta nýja frumvarp er búið að eiga sér langan aðdraganda, hefur verið lagt fram á Alþingi í tvígang og í bæði skiptin ennfremur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og tækifæri því veitt til að gera athugasemdir. Ráðherra verður því ekki sakaður um að hafa ekki veitt tækifæri til skoðanaskipta í aðdragandanum og að hafa áhrif á innihald þess. Það er auðvitað til fyrirmyndar. En kannski vegna þess er eitt og annað í frumvarpinu sem ber þess merki að það er verið að feta slóðina á milli einstakara viðhorfa. Og hvað varðar áhættumatið, finnst  mér það ekki hafa tekist vel, þó í öðrum tilvikum hafi það tekist betur.“

 

DEILA