Atvinnuveganefnd Alþingis kynnir sér fiskeldi í Noregi

Íslenski ferðahópurinn. Mynd tekin á síma Ásmundar Friðrikssonar, alþm.

Atvinnuveganefnd Alþingis heimsækir Bergen dagana 4.–8. mars 2019 til að kynna sér fiskeldi í Noregi. Nefndin sækir NASF sjávarútvegsráðstefnuna og ýmsa fyrirlestra um fiskeldi og sjávarútveg, auk þess sem farið verður í heimsóknir til rannsóknarstofnana, fyrirtækja og umhverfisverndarsamtaka.

Formaður nefndarinnar er Vestfirðingurinn Lilja Rafney Magnúsdóttir og Bæjarins besta innti hana í gærkvöldi eftir tíðindum úr ferðinni.

„Atvinnuveganefnd er í fróðlegri kynnisferð í Bergen að kynna sér fiskeldið frá ýmsum hliðum. Fórum í gagnlega ferð í rótgróið fiskeldisfyrirtæki“ Blom fiskdratten “ í dag  og fórum m.a. út í sjókvíar og fóðurstöð en fyrirtækið hefur verið rekið af sömu fjölskyldu í 50 ár og er bæði með eldi í lax og regnbogasilungi og gengur vel en eru í seinni tíð að glíma við sjúkdóma sem tengjast hlýnun sjávar  og er að þróa ýmsar nýjungar til að bregðast við þeim. Í ferðinni munum við ræða við rannsóknar og eftirlitsaðila með fiskeldi og umhverfissamtök ásamt þáttöku okkar í  sjávarútvegsráðstefnunni NASF.“

Lilja Rafney bætti því við : „Ég tel að þessi ferð nýtist atvinnuveganefnd vel í umfjöllun nefndarinnar um frumvörp um fiskeldi sem mælt verður fyrir á næstu dögum. Það sem af er ferðar hefur verið afar fróðlegt og gagnlegt og við getum lært af því sem vel hefur verið gert og forðast það sem miður hefur farið hjá Norðmönnum.“

Fyrir hönd atvinnuveganefndar taka þátt í ferðinni Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Sara Elísa Þórðardóttir, Sigurður Páll Jónsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir.

 

DEILA