Aldrei var svo vitlaus gerð…

Minn góði vinur og fyrrverandi samstarfsmaður, Finnbogi Hermannsson, setur í ljóðræna gírinn í nýlegum pistli hér á vef okkar Vestfirðinga. Hann vitnar í þjóðskáldin um leið og mér sýnist hann mæla gegn virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum. Sem sérlegur upplýsingafulltrúi framkvæmdaaðilans, VesturVerks á Ísafirði, vil ég svara greininni í nokkrum orðum – einkum þó því sem Finnbogi fer ranglega með.

Um miðbik greinarinnar segir hann: „Uppsett afl Hvalárvirkjunar er fyrirhugað 55 megawött en það verður aðeins brot af því sem fer til Vestfirðinga. Að minnsta kosti 50 megawött fara til sölu á almennan markað í landinu.“

Hér verður að leiðrétta greinarhöfund. Enginn veit – ekki einu sinni virkjunaraðilinn – hvert orkan frá Hvalá verður á endanum seld. Það mun ráðast af framboði og eftirspurn á þeim tíma þegar virkjunin verður tekin í gagnið. Þangað til eru nokkur ár. Ein viljayfirlýsing liggur fyrir um mögulega sölu á allt að 10MW af orku frá VesturVerki til fyrirhugaðrar Kalþörungaverksmiðju í Súðavík. Önnur orkusala frá VesturVerki er óráðin.

Orka úr Hvalá nýtist á Vestfjörðum

Best væri ef Hvalá gæti svarað aukinni eftirspurn eftir rafmagni á Vestfjörðum – eftirspurn sem mun fylgja þeirri uppbyggingu atvinnulífs í fjórðungnum, sem væntingar standa til að verði, s.s. í tengslum við fiskeldi í sjó. Einnig mun orkueftirspurn íbúa aukast samkvæmt spá Orkuspárnefndar og þá eru ótalin orkuskiptin sem rík krafa er um á heimsvísu.

Það sem þó er víst og mestu skiptir er að rafmagn ferðast alltaf stystu mögulegu leið. Orkan nýtist best næst uppruna sínum. Það þýðir að orka sem verður til í Hvalá fer fyrst inn á vestfirskt flutningskerfi og nýtist í fjórðungnum. Það sem umfram verður fer inn á meginflutningskerfi Landsnets.

Meginflutningskerfið er eins og risastór pottur á miðju landinu. Allar orkuvinnslurnar streyma afurð sinni ofan í pottinn og á honum neðanverðum eru einstreymislokar allan hringinn. Kaupendur orkunnar skrúfa svo frá þeim loka, sem næstur þeim er, þegar þörf er á orku. Það er því ekki þannig að megawatt, sem selt er frá virkjun á Vestfjörðum til kaupanda á Fáskrúðsfirði, ferðist alla þá vegalengd heldur fer það í sameiginlega púkkið – inn á meginflutningskerfið. Orka sem framleidd er á Vestfjörðum nýtist því á Vestfjörðum.

Til heilla fyrir Árneshrepp

Raforkumál urðu góðu skáldi hér fyrir vestan oft að yrkisefni. Guðmundur Ingi Kristjánsson frá Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði sat marga fundi Orkubús Vestfjarða og lét sig raforkumál fjórðungsins miklu varða. Hann orti:

Aldrei var svo vitlaus gerð

virkjun hér á landi,

að hún borgi ei sitt verð

og til heilla standi

Í lok greinarinnar tæpir Finnbogi á ýmsum þeim verkefnum sem VesturVerk hefur lýst sig reiðubúið að koma að. Ef lesið er á milli línanna þá virðist hann ekki allskostar sáttur við þau. Að ráðast í samfélagsverkefni í tengslum við stórframkvæmdir er þó ekki nýtt af nálinni og ætti að teljast af hinu góða í sveitarfélagi þar sem tekjur sveitarfélagsins og framlög ríkisins duga vart til að halda uppi grunnþjónustu. VesturVerk er stolt af þeim verkefnum, sem þegar hafa verið kynnt til sögunnar, s.s. bætt aðgengi með upplýsingaskiltum við helstu náttúruperlur, hafnarframkvæmdir í Norðurfirði og gestastofa, sem fyrirhuguð er í grennd við stöðvarhús Hvalárvirkjunar. Þar verður mögulegt fyrir heimamenn að bjóða upp á margþætta þjónustu, s.s. gistingu, veitingar og sýningaraðstöðu ásamt tjaldsvæði. Allt mun þetta, ásamt betrumbótum á vegum í hreppnum, auka aðgengi ferðafólks að einstakri náttúru Árneshrepps.

Þrjár hringtengingar

Mikilvægast í þessu samhengi er þó að með tilkomu Hvalárvirkjunar kemst á þrenns konar hringtenging á Ströndum: Hringvegur með sumarvegi yfir Ófeigsfjarðarheiði, sem yrði sambærilegur veginum um Þorskafjarðarheiði, hringtenging ljósleiðara og hringtenging þriggja fasa rafmagns, en viðræður standa yfir um það verkefni milli Orkubús Vestfjarða og VesturVerks. Með þessari innviðauppbyggingu yrðu Árneshreppur og nágrannasveitarfélög komin í hóp best settu sveitarfélaga landsins í þessum efnum.

Það munar um minna.

Birna Lárusdóttir

upplýsingafulltrúi VesturVerks ehf. á Ísafirði

DEILA