Vísindaportið: Þetta er það sem ég elskaði að gera

Gestur í Vísindaporti föstudaginn 22. febrúar er Sveinfríður Olga Veturliðadóttir og mun hún kynna niðurstöður rannsóknar. Markmið með rannsókninni var að skoða hver reynsla kennara er af áreitni nemenda og foreldra og hvaða áhrif hún hefur á líðan þeirra, bæði persónulega og faglega. Rannsóknarspurningarnar sem lagt var upp með eru: Hver er reynsla kennara af áreitni foreldra og nemenda? Hver eru áhrif áreitni á líðan þeirra í starfi og einkalífi? Rannsóknin var birt sem M.Ed.-ritgerð við Menntasvið Háskóla Íslands í nóvember 2018 “Þetta er það sem ég elskaði að gera, reynsla kennara af áreitni nemenda og foreldra”. Ítarlegra ágrip er að finna á vefsíðu Háskólaseturs: https://www.uw.is/vidburdir/Thetta_er_thad_sem_eg_elskadi_ad_gera_reynsla_kennara_af_areitni_nemenda_og_foreldra/
Sveinfríður Olga er fædd og uppalin á Ísafirði. Lauk hún B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands 1991, diplómu í Stjórnun menntastofnana frá sama skóla 2006 og M.Ed prófi í Stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands 2018.  Sveinfríður Olga hefur kennt við Vesturbæjarskóla, Rimaskóla og Borgarskóla í Reykjavík frá 1991-2006 þar sem hún leysti af sem aðstoðarskólastjóri eitt ár og var deildarstjóri í 3 ár utan eitt ár við Grunnskólann á Ísafirði 1992-93. Frá haustinu 2007 hefur Sveinfríður Olga verið skólastjóri við Grunnskólann á Ísafirði.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.
DEILA