Vísindaportið 15. febrúar: Dokkan

Dokkan: fyrsta brugghúsið á Vestfjörðum
Hvað fær fólk til að ráðast í nýsköpun? Hugmynd vaknar, hún er rædd og það er ákveðið að kynna sér hvað gæti falist í þessari hugmynd. Svo er ákvörðunin tekin. Í grófum dráttum var ferlið á þessa leið hjá stofnendum Dokkunnar brugghúss og verða tveir þeirra, þau Gunnhildur Gestsdóttir og Hákon Hermannsson, gestir í Vísindaporti vikunnar, föstudaginn 15. febrúar. Munu þau segja okkur frá aðdraganda að stofnun þessa ísfirska nýsköpunarfyrirtækis sem jafnframt er fjölskyldufyrirtæki.
Dokkan er stofnuð til að brugga bjór fyrir Vestfirðinga, en einnig með erlenda ferðamenn sem leggja leið sína á Ísafjörð í huga og auðvitað alla landsmenn. Svo er aldrei að vita, þegar fram líða stundir hvort bjórinn verður ef til vill fluttur út á erlendan markað.
Gunnhildur Gestsdóttir er fædd og uppalin á Suðureyri við Súgandafjörð. Hún hefur búið á Ísafirði frá 1979 ásamt eiginmanni sínum Alberti Marzelíusi Högnasyni. Hún hefur verið í eigin rekstri meira og minna síðastliðin 30 ár og meðal annars rekið Blómabúð Ísafjarðar, 3X Technology (nú Skaginn 3X), verslunina Silfurtorg og núna Jóga-Ísafjörður ásamt því að vera eigandi og stjórnarformaður Dokkunnar brugghúss ehf.
Hákon Hermannsson er fæddur og uppalinn á Ísafirði og býr þar ásamt fjölskyldu sinni, eiginkonu og fjórum sonum. Lauk hann námi við MÍ og hefur unnið sem sölustjóri hjá Sólsteinum, verslunarstjóri hjá Samkaupum ásamt vinnu við múrverk og aðra iðn. Hákon starfar nú sem framkvæmdastjóri Dokkunnar brugghús ehf.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.
DEILA