Þ-H leiðin staðfest og engin breyting -en harðar ásakanir bornar fram

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hélt í þarsíðustu viku fund um vegamálin og þar var fyrirfram boðað að tekin yrði lokaákvörðun um leiðaval.  Fyrir fundinum lá tillaga frá skipulagsnefnd sveitarfélagsins sem Karl Kristjánson, formaður nefndarinnar og Ingimar Ingimarsson, oddviti  höfðu lagt fram og fengið samþykkta með eigin atkvæðum gegn atkvæði þriðja nefndarmannsins, að leið R yrði sett á aðalskipulag.  Sú atkvæðagreiðsla var reyndar fyrstu merkin um óeiningu um stefnu núverandi sveitarstjórnar sem hafði snúið algerlega við blaðinu frá stefnu fyrri hreppsnefnda.

Fundahöld með Samgönguráðherra og forsætisráðherra daginn fyrir sveitarstjórnarfundinn höfðu engin áhrif á tillögumennina í skipulagsnefndinni og því var viðbúið að niðurstaðan yrði eins og þeir lögðu til.

Á fundinum tók málið hins vegar óvænta stefnu. Fundarmenn komu undirbúnir til fundar með bókanir og tillögur í farteskinu og á aðeins 32 mínútum voru viðamiklar bókanir lagðar fram og tillögur bornar upp til atkvæða. Óvænt hafði Þ-H leiðin verið samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur og niðustaðan var að Reykhólahreppur heldur sömu stefnu og hann hefur fylgt a.m.k. frá 2005. Það eina sem hefur þá breyst frá úrslitafundinum í fyrra þann 8. mars er að málið hefur tafist um a.m.k. eitt ár. Framkvæmdir við Þ-H leiðina munu ekki hefjast í sumar eins og að var stefnt heldur ekki fyrr en 2020.

Undirbúið leikrit

Sveitarstjórnarfundurinn sem beðið hafði verið eftir varð að undirbúnu leikriti. Sveitarstjórnarmennirnir höfðu greinilega talað saman fyrir fundinn og vissu hvernig færi. Hver kom með sína útprentuðu bókun og eftir atvikum tillögu og málið afgreitt umræðulaust eða svo gott sem. Bókanirnar eru allrar athygli verðar fyrir  gagnrýni  og ásakanir í nánast allar áttir út fyrir hreppsnefndina. Það er spurning hvað á að lesa úr  þessu fjaðrafoki. Ef til vill eru hreppsnefndarmennirnir þrír ( eða öllu heldur konurnar þrjár) að halda einhvern frið við karlana tvo sem urðu undir með því að sýna lágmarkssamstöðu með þeim í gagnrýninni á utanaðkomandi „vonda „ aðila þar sem Vegagerðin var verst, svo nágrannasveitarfélögin, þá Fjórðungssambandið og loks fékk Samgönguráðherra smá gusu líka. Þessi gusugangur dregur athyglina frá því að konurnar þrjár hafa í kyrrþey komist að þeirri niðurstöðu að R leiðin var og er fleigðarflan sem engu góðu skilar. Kannski er það bara ætlunin. En varðandi fundinn sjálfan þá þarf góðan undirbúning til þess að klára allt þetta ferli á aðeins 32 mínútum.

Stóryrðin

Yfirlýsingarnar í bókunum eru óvenjulegar. Bókun oddvitans sker sig þó úr að því leyti hversu stóryrt og persónuleg hún er. Ingimar Ingimarsson, oddviti bókaði að „hótanir, kúgun og áburður Vegagerðarinnar, nágrannasveitarfélaga og Fjórðungssambandssins hafa borið tilætlaðan árangur“ og bætir svo um betur með þessum orðum í framhaldinu: „ keyrir Vegagerðin, nágrannar okkar og Fjórðungssambandið, sem við erum enn hluti af, með ofbeldi og ofsa gagnvart okkur.“

Þarna eru harðar ásakanir um hótanir, kúgun, áburð, ofsa og ofbeldi. Þeim er beint gegn Vegagerðinni, nágrannasveitarfélögum og Fjórðungssambandinu. Þarna fá á sig gusurnar Iða Marsibil Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Vesturbyggð og formaður samgöngunefndar Fjórðungssambandsins, Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggð, Bryndís Sigurðardóttir sveitarstjóri Tálknafirði og  Hafdís Gunnarssdóttir formaður Fjórðungssambandsins svo nokkrir séu nefndir sem liggja undir þessum orðaflaumi. Ásakanirnar eru heldur ekki léttvægar: kúgun, hótanir, ofsi og ofbeldi!

Svona munnsöfnuður og það skriflegur hefur aldrei áður sést í vestfirskum sveitarstjórnarmálum, hvað þá á landsmálasviðinu.

Út úr Fjórðungssambandinu?

Í bókuninni er ein dulbúin hótun sem vert er að taka eftir: Fjórðungssambandið, sem við erum enn hluti af.  Þarna er gefið í skyn að aðild Reykhólahrepps að Fjórðungssambandinu geti breyst og að sveitarfélagið kunni að segja sig úr því.  Er það svo að það standi til? Oddvitinn svarar engu um það.

 

Skipulagsvaldið

Því er haldið fram í bókun Árnýjar H. Haraldsdóttur, varaoddvita að skipulagsvaldið hafi verið tekið af sveitarstjórninni og hún boðar athugun á því að leggja fram stjórnsýslukæru á hendur Vegagerðinni vegna þess. Jóhanna Ösp og Embla Dögg taka undir þetta að nokkru leyti  og segja að sveitarfélaginu hafi verið settar fjárhagslegar skorður og segjast setja af því tilefni spurningarmerki við það hvort skipulagsvaldið liggi í raun hjá sveitarfélögunum.  Bæjarins besta hefur sent þeim fyrirspurn og beðið þær að skýra þessi ummæli sín og rökstyðja en engin svör hafa borist. Sama skoðun er sett fram í málflutningi Ingimars Ingimarssonar oddvita.

Þessi staðhæfing er algerlega úr lausu lofti gripin. Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum. Þess vegna gerist ekkert í nýrri vegarlagningu  fyrr en sveitarfélagið hefur samþykkt viðeigandi breytingar á skipulagi. Skipulagsvald sveitarfélaga nær hins vegar ekki til þess að skylda ríkið og Vegagerðina fyrir þess hönd til þess að leggja veg þar sem sveitarfélagið vill en ríkið vill ekki og enn síður ræður sveitarfélagið því hvað miklu fé ríkið ver til vegagerðarinnar. Það eru ákvæði í lögum sem bæði sveitarfélagið og ríkið verða að fara eftir, svo sem vegalögum og fjárlögum. Núverandi sveitarstjórn Reykhólahrepps á enn eftir að samþykkja endanlega aðalskipulagsbreytingarnar og í framhaldinu að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir vegaframkvæmdunum. Valdið er í þeirra höndum. Nýr vegur verður aðeins lagður að fengnu samþykki hreppsnefndarmanna í Reykhólahreppi.

Þeir eiga einfaldlega að viðurkenna að R leiðin er ekki og hefur aldrei verið valkostur. Sveitarstjórn Reykhólahrepps getur auðvitað lagt veginn á eigin kostnað ef henni sýnist svo. Það mun kosta a.m.k. 11 milljarða króna og væntanlega vefjast eitthvað fyrir sveitarsjóði að eiga fyrir reikningunum. Kannski að þeir Hagkaupsbræður vilji opna gullkistur sínar fyrir trén í Teigsskógi.

Einleikur á lokastigi

Hin dapra staðreynd er að á síðasta ári hefur verið leikinn eineikur í vegamálunum í Gufudalssveit þar sem öllum öðrum, sem að málinu hafa komið, hefur verið stillt upp við vegg og fyrri samstaða að engu virt. Það hefur í gegnum tíðina ekki hvað síst verið sveitarstjórnarmenn í Reykhólahreppi sem hafa knúið fast á um Þ-H leiðina alla tíð. Það kom til dæmis berlega í ljós þegar farið var að hreyfa málinu aftur eftir langa töf í kjölfar Hæstarréttardómsins frá 2009. Þá vildu ýmsir, þar með talið Vegagerðin skoða aðrar leiðir en Reykhólahreppur tók það ekki í mál.

Það er mikil óbilgirni  og ósanngirni hjá þeim sem hafa leitt þessa eyðimerkurgöngu í garð þeirra sem að málinu hafa unnið í tvo áratugi. Það var búið að skoða allar þær leiðir sem bryddað var upp á að nýju svo sem stórþverun Þorskafjarðar. Það var ekkert nýtt í R leiðinni, bara gamalt vín á nýjum norskum belg. Forystumenn  Reykhólahrepps hafa líka orðið varir við að þeir standa algerlega einir í sínu feigðarflani. Það var frá upphafi alveg ljóst að það myndi engu skila, öðru en að tefja fyrir nauðsynlegum úrbótum. Það er vonandi að þetta spil sé komið á endastöð og að nú verði hægt að halda áfram frá því sem horfið var- ári seinna en vonir stóðu til.

En sú von byggir á því að sveitarstjórnin láti hér eftir skynsemina ráða og haldi sig innan þeirra marka sem lög ákveða – og fylgi afstöðu forvera sinna í sveitarstjórninni síðustu 16 árin.

-k

 

DEILA