Tálknafjörður: Alvarlegar áhyggjur af stöðu atvinnumála

Tveir sveitarstjórnarmenn á Tálknafirði lýstu alvarlegum áhyggjum sínum af stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu á síðasta fundi sveitarstjórnarinnar sem var á fimmtudaginn í síðustu viku.

Það voru þær Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir og Lilja Magnúsdóttir sem lögðu fram bókunina. Þar segir að þær:

„lýsa alvarlegum áhyggjum af stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu þegar ljóst er að byggðakvóti mun aðeins nýtast fáum og búið er að segja upp öllum starfsmönnum TV-verks ehf. Óvíst er um atvinnumöguleika iðnaðarmanna sem þar missa vinnuna og enn er óvissa um framtíð fiskeldis í Tálknafirði enda er ekki endalaus vinna í boði þar.“

Ingibjörg Ósk var kosin af Ó lista sem fékk 4 menn af 5 í hrepspnefnd en sagði sig frá listanum og starfar sem óháð í sveitarstjórninni og Lilja var kosin af E lista sme fékk einn fulltrúa.

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri segir að það sé vissulega afar slæmt ef trésmiðjan hættir rekstri og eins sé bagalegt að biðstaða sé í frekari uppbyggingu fiskeldisins vegna úrskurðar Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, en hún telur samt ekki ástæðu til þess að  hafa alvarlegar áhyggjur af stöðu atvinnumála eins og segir í bókuninni.

DEILA