Stjórnsýsluhúsið: húsvarsla og ræsting hækkar um 63% milli ára

Ársreikningur Stjórnsýsluhússins á Ísafirði fyrir 2018 hefur verið lagður fram til kynningar. Útgjöldin urðu 27,5 milljónir króna. Stærsti liðurinn er annar rekstrarkostnaður en hann varð 25,4 milljónir króna og hækkaði úr 19,7 milljónum króna á árinu 2017. Hækkunin er um 29%.

Einstakir liðir innan annars rekstrarkostnaðar eru húsvarsla og ræsting. Sá liður varð 9 milljónir króna á síðasta ári en 5,5 milljónir króna árið áður. Hækkunin er um 63%.

Viðhald húsnæðisins hækkaði úr 2,6 milljónum króna upp í 5,9 milljónir króna eða um 127%. Kostnaður við hita varð 5 milljónir króna og hækkaði um 39% frá 2017. Viðhald tækja og áhalda lækkaði úr 2,4 milljónum króna í 200 þúsund krónur.

Stjórnunarkostnaður varð 1,8 milljónir króna 2018, þar af 1,2 milljónir króna í laun rekstrarnefndar.

Útgjöldin eru að mestu greidd með rekstrarframlögum eigenda. Leigutekjur af fundarsölum voru 620 þúsund krónur á síðasta ári.

 

DEILA