Skora á ríkið að kaupa Vigur

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykktií síðustu viku áskorun til umhverfisráðherra og ríkisstjórn Íslands um að kaupa eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi.

Tillagan er rökstudd með því að þar er búseta, sjófuglabyggð, menningarminjar og ferðaþjónusta en nú sé eyjan til sölu og að útlendingar hafi sýnt kaupum áhuga. Óttast bæjarstjórnin að nýir eigendur loki fyrir aðgang almennings að eyjunni.

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að það sem fyrir  bæjarstjórninni vaki sé að tryggja aðgengið en erlent eignarhald sé ekki áhyggjuefnið. „Þetta snýst um óvissuna og þann raunverulega möguleika að eyjan verði keypt með aðra sýn í huga en núverandi eigendur hafa.“ segir Guðmundur.

Salvar Baldursson, bóndi í Vigur segir að nokkuð hafi verið um fyrirspurnir um kaup á eyjunni og meiri áhugi hafi verið erlendis frá, en jörðin er enn óseld. Salvar segir að um varptímann frá 15. apríl til 15. júní sé friðlýsing í gildi vegna æðarfulgsins.

 

Áskorunin í heild:

Áskorun á umhverfisráðherra og ríkisstjórn Íslands að kaupa eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar skorar á umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmund Inga
Guðbrandsson og ríkisstjórn Íslands að freista þess að kaupa eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi.
Eyjan Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi og er önnur tveggja sem eru byggðar. Eyjan
er löng og mjó og er staðsett í minni Skötufjarðar. Í eyjunni er alþjóðlega mikilvæg
sjófuglabyggð (≥10.000 pör) og uppfyllir teista alþjóðleg verndarviðmið (200 pör).

Þar verpur einnig lundi (28.800 pör) og mikið af æðarfugli (um 3.500 pör). Í eyjunni eru ennfremur menningarminjar svosem elsta vindmylla á Íslandi sem byggð var árið 1860, þar er elsti bátur landsins, Vigur Breiður sem var smíðaður um 1800 og svo stórglæsilegt Viktoríuhús sem var smíðað í kringum 1860. Undanfarna áratugi hefur verið starfrækt öflug ferðaþjónusta í Vigur   en með því móti hefur almenningi og ferðamönnum gefist tækifæri á að njóta náttúrunnar og sögunnar í eynni.

Síðastliðið sumar var eyjan sett á sölu og í fréttum hefur komið fram að mestmegnis séu það erlendir aðilar sem hafi áhuga á jörðinni. Í ljósi þess og þeim raunhæfa möguleika að eyjan verði keypt og lokuð almenningi vill bæjarstjórn skora á ríkið að kaupa Vigur og með því tryggja áframhaldandi aðgengi að þessari náttúruperlu í Ísafjarðardjúpi.