Patreksfjörður: leikskólinn Araklettur fullnýttur

Leikskólinn Araklettur við Strandgötu á Patreksfirði.

Bæjarráð Vesturbyggðar samþykkti að skipa  starfshóp um leikskólamál á Patreksfirði i ljósi þess að fyrirséð er að ekki verður hægt að taka við börnum inn á leikskólann Araklett ef ekkert verður gert. Leikskólinn er fullur og munu einungis þrjú börn hefja grunnskólagöngu í Patreksskóla í haust en mun fleiri börn bíða eftir leikskólaplássi.

Starfshópinn skipa, Elfar Steinn Karlsson, forstöðumaður tæknideildar, Svanhvít Skjaldardóttir, starfsmaður félagsþjónustu, og Guðrún Eggertsdóttir, formaður fræðslu- og æskulýðsráðs. Bæjarráð óskar eftir því að hópurinn skili tillögum til bæjarráðs fyrir 1. mars 2019.

Leikskólinn Araklettur er við Strandgötu á Patreksfirði. Hann var byggður 1984 og tók til starfa í september það ár. Nafnið er dregið af  örnefni í grennd skólans. Þrjár deildir starfa á Arakletti; yngsta deildin Klettur, miðdeildin Krókur og elsta deildin Kot. Á Arakletti eru allt að 50 börn.

DEILA