Ingibjörg Guðmundsdóttir nýr skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri

Ingibjörg Guðmundsdóttir.

Ingibjörg Guðmundsdóttir, núverandi kennslustjóri Háskólans í Reykjavík, hefur verið ráðin skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri frá 15. júní næstkomandi og tekur þá við af Helenu Jónsdóttur sem leitt hefur uppbyggingu skólans síðasta árið.

Ingibjörg hefur víðtæka reynslu og þekkingu á íslenskum skólamálum en áður en hún réði sig til HR árið 2015 starfaði hún m.a. sem framkvæmdastjóri kennslu- og þjónustu við Háskólann á Bifröst og þar áður sem umsjónamaður fjarnáms við sama skóla.

Ingibjörg er menntaður leikskólakennari frá Fósturskóla Íslands árið 1991. Hún lauk BA gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2005 og MA gráðu í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla árið 2010. Hún er jafnframt bæði með diplóma í kennsluréttindum á framhaldsskólastigi frá Háskólanum á Akureyri frá árinu 2011 og á háskólastigi frá Háskóla Íslands frá árinu 2013 auk þess að vera með IPMA vottun í verkefnastjórnun frá Verkefnastjórnunarfélagi Íslands. Þar fyrir utan hefur hún fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi og stjórnkerfi.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Ingibjörgu til liðs við Lýðháskólann“ segir Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður hans. „Hún hefur afburða þekkingu og reynslu af skólamálum sem mun gagnast skólanum við þróun hans sem sjálfsagðs og eðlilegs hluta af íslensku menntakerfi. Meginverkefni Ingibjargar næstu misserin verða að halda áfram þeirri kröftugu uppbyggingu sem einkennt hefur fyrsta starfsár skólans, uppbygging nemendagarða í samstarfi við Ísafjarðarbæ, alþjóðlegt samstarf og að sjálfsögðu þróun þeirra námsbrauta sem þegar eru kenndar við skólann“ segir Runólfur og bætir við: „Þetta eru góðar fréttir fyrir skólann og framtíð hans. Þetta eru góðar fréttir fyrir Flateyri.“

„Ég hlakka til að takast á við þetta krefjandi verkefni og flytja á Flateyri“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir. „Flateyri skipar stóran sess í mínu lífi og það er ótrúlega gaman að fá tækifæri til að leiða áframhaldandi þróun á þessu ævintýri.“

Ingibjörg mun starfa samhliða fráfarandi skólastjóra að undirbúningi næsta skólaárs. „Við viljum þakka Helenu Jónsdóttur afburða störf í þágu skólans síðastliðið ár segir Runólfur. „Stofnun skólans og starfsemi þetta fyrsta starfsár er ekkert minna en kraftaverk. Þar hefur hún gegnt lykilhlutverki. Lýðháskólinn á Flateyri væri ekki það sem hann er í dag ef hennar hefði ekki notið við og hennar framlag til skólans er ómetanlegt.“

DEILA