Hætta á holumyndunum í þessu tíðarfari

Holur í slitlagi skemmdir

Vegagerðin hefur vakið athygli á því í fréttatilkynningu að veðurfarið sé nú þammig að hætta sé á holumyndun á vegum.

Fréttatilkynningin:

Nú er hvoru tveggja sá árstími og það tíðarfar sem eykur hættuna á holumyndunum á þjóðvegum. Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu. Vegfarendur er því beðnir að sýna sérstaka árvekni og aka ætíð eftir aðstæðum.

Það getur tekið skamman tíma fyrir holu að myndast, jafnvel djúpa holu sem getur leitt til tjóns. Starfsmenn þjónustustöðvanna fylgjast með eins og kostur er og bregðast við ábendingum um holur. Vegagerðin leitast við að bregðast við með viðgerð sem allra fyrst.

Vegagerðin tekur við ábendingum vegfarenda um holur og má t.d. senda upplýsingar á netfangið vegagerdin@vegagerdin.is og í síma 1777. Lendi vegfarandi í tjóni er rétt að fylla út tjónstilkynningu en hana má finna á vef Vegagerðarinnar. Það er mikilvægt að sýna árvekni og vera vakandi fyrir því í umferðinni að holur geta myndast mjög hratt, þannig að þótt ekið sé á vegi sem var í góðu lagi í gær, getur verið komin hola í morgunsárið.

DEILA