Flutningabíll valt í Gufufirði

Flutningabíllinn sem valt. Mynd: Reykhólavefurinn.

Frá því er sagt á Reykhólavefnum að flutningabíll hafi oltið á laugardaginn í Gufufirði, innst á Hofsstaðahlíð.

Hann var að mæta minni bíl á mjög mjóum vegi, en smá snjórastir eru í köntunum svo vegurinn sýnist aðeins breiðari en hann í raun og veru er. Á þessum stað er akbrautin innan við 6 m. Frá áramótum er þetta 2. flutningabíllinn sem veltur á þessum kafla, frá slitlagsenda sunnan við Skálanes og að Gufudal.

Flutningabíllinn var með fullfermi af lambahornum, sem voru að fara í vinnslu á Tálknafirði í gæludýrafóður. Ekki reyndist unnt að ná bílnum upp á veginn með farminum.

Því verður að tæma vagninn á staðnum, en gæta þarf ítrustu varúðar vegna smithættu, segir á Reykhólavefnum þar sem hornin flokkast sem sláturafurðir og eru hvaðanæva af landinu, en Reykhólasveit er hreint svæði og laust við búfjársjúkdóma.

Á síðasta ári fóru 11 bílar útaf á þessum kafla, sem betur fer slasaðist enginn alvarlega í þessum óhöppum en eignatjón var mikið.

DEILA