Erfiðleikar hjá West Seafood

Verulegir erfiðleikar steðja að West Seafood á Flateyri. Fyrirtækið rekur bæði útgerð og fiskvinnslu og hefur samning við Byggðastofnun um sérstakan byggðakvóta til nokkurra ára, auk almenns byggðakvóta.

Um mánaðamótin var 5 af 10 starfsmönnum í fiskvinnslunni sagt upp, samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta. Þá mun vinnslan vera lokuð þessa dagana. West Seafood hefur rekið útbú á Flateyri frá Fiskmarkaði Vestfjarða ehf í Bolungavík en á föstudaginn í síðustu viku tók fyrirtækið Walvis ehf við fiskmarkaðnum og annast rekstur hans. Þetta staðfesti Þorgils Þorgilsson frmakvæmdastjóri Walvis ehf í samtali við Bæjarins besta.

Haft var samband við West Seafood en  ekki náðist samband við forsvarsmenn fyrirtækisins.

West Seafood á í erfiðleikum við að gera upp skuldir sínar við viðskiptamenn sína og samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta nema ógreiddar skuldir vel á fjórða tug milljóna króna.

Uppfært kl 7;46.  Karl Brynjólfsson, framkvæmdastjóri Wset Seafood segir í athugasemd að fiskvinnslan sé ekki lokuð þessa daga eins og segir í fréttinni heldur hafi Baader vél verið biluð og auk þess hafi verið bræla síðustu daga. Þá hafi 3 verið sagt upp en ekki 5 og fjöldi starfsmanna í fiskvinnslu sé 16.

DEILA