„Elskan mín, minna svaf ég“

Eftirfarandi þáttur er úr viðtali við Elís Kjaran í frá Bjargtöngum að Djúpi nýr flokkur 6. bindi, þar sem fjallað er um 100 ára afmæli Vélsmiðju Guðmundar J. Sigurðssonar og co hf. Er rifjaður upp til að lífga lítils háttar upp á tilveruna. Það er mikið búið að skemmta sér yfir honum þessa dagana í sundlauginni.

„Þú manst vel eftir Guðmundi Tómassyni.“

„Já, „elskan mín“, það er nú líkast til.“

„Gummi Tomm var nú alveg sérstakur karakter. Hann var svona afsprengi af gömlu amerísku skútukörlunum, lúðuveiðurunum, sem hér voru á sínum tíma. Þeir áttu sitt uppsátur, ef maður getur kallað það svo, hér á Þingeyri og höfðu svona viðveru hjá hlýjum konum, þegar þeir komu kaldir og hraktir af hafinu. Gummi Tomm var einmitt ávöxtur af einhverju slíku. Hann var svolítið amerískur í útliti. Hann hikstaði svolítið í máli, eelskan mín. Hann var mjög lundgóður alltaf, karlinn, og mjög húsbóndahollur. Þetta voru einstakir persónuleikar. Ég held það fæðist ekki aðrir slíkir í dag. Hann annaðist meðal annars gangsetningu á smiðjumótornum, sem var eina vélin sem framleiddi rafmagn fyrir smiðjuna og nokkur hús að auki. Svo þegar byrjað var að útvarpa hér á landi, þá tíðkuðust útvarpstæki með þurrabatteríum og rafgeymum, yfirleitt tveggja volta. Það komu allir útvarpseigendur með rafgeyma sína og fengu þá hlaðna í smiðjunni. Og það var einmitt Gummi Tomm sem var hleðslumeistari fyrir fyrirtækið. Hann sópaði gólfin og fór í sendiferðir og gerði allan skrattann, sem daglega þarf að gera í einu fyrirtæki.“

“ Eitt sinn svaf Guðmundur nafni hans eitthvað lítið einhverja nóttina.“

„Það er nú líklegt. Það var nú lengi besti brandarinn hér á Þingeyri, sko. Það var alltaf svolítill metingur milli manna. Svo var það einhverntíma snemma morguns, að þeir voru komnir inn á „kontór“, topparnir, því þeir drukku alltaf kaffi þar með Guðmundi J. Sig. og Matthíasi, menn eins og Óli Hjört, Dóri á Dýrhól og Gummi Tomm. Þá snýr Guðmundur J. Sigurðsson sér allt í einu að Gumma Tomm og segir:

„Ja, nú svaf ég bara ekkert í nótt, nafni minn.“

Hinn svaraði að bragði: „Elskan mín, minna svaf ég.“

Fengip af Þingeyrarvefnum.

DEILA