Byggðakvótareglur Vesturbyggðar : synjun ráðuneytisins

Húsnæði Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið synjaði Vesturbyggð byggðakvótareglum þeim sem bæjarstjórnin hafði samþykkt með þeim rökum að það gengi þvert gegn tilgangi úthlutunar byggðakvóta til minni byggðarlaga að sameina byggðakvótana þrjá sem til Vesturbyggðar var úthlutað ( Brjánslækur, Patreksfjörður og Bíldudalur) og búa raunverulega til einn byggðakvóta  fyrir sveitarfélagið sem yrði ráðstafað án tillits til þess magns sem ætlað er til hvers byggðarlags.

Þetta kemur fram í bréfi ráðuneytisins dags 15.2. 2019 til Vesturbyggðar.  Vísar ráðuneytið til 10. gr laga nr 116/2016 og reglugerðar nr 685/2018. Þá segir ráðuneytið í bréfinu að þar sem ekki sé fallist á sameinaðan byggðakvóta fyrir sveitarfélagið sé heldur ekki hægt að fallast á samþykkt Vesturbyggðar um hámark á úthlutun til einstakra skipa og er því þeirri samþykkt líka hafnað.

Birtir svo ráðuneytið í bréfinu reglurnar eins og þær verða að teknu tilliti til athugasemda ráðuneytisins og gefur sveitarfélaginu eina viku til þess að gera athugasemdir við þær.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar tók málið fyrir á fundi sínum á miðvikudaginn og það var bókað að „Bæjarstjóra verði falið að senda athugasemdir sveitarfélagsins í samráði við bæjarráð við ákvörðun ráðuneytisins innan tilskilins frests.“

Ekki kemur fram hverjar athugasemdirnar eru sem bæjarstjórnin gerði.

DEILA