Ábending um notkun endurskinsmerkja

Haft var samband við Bæjarins besta og vakin athygli á því að bráðnauðsynlegt væri að nota endurskinsmerki.

Bílstjóri á Ísafirði segir svo frá reynslu sinni í gær:

„Ég lenti í því í myrkrinu í morgun að keyra framhjá manneskju sem beið og ætlaði yfir götuna.  Ég keyrði á löglegum hraða og í poll sem var við gangstéttina.  Ég er alveg viss um að ég hef baðað manneskjuna úr pollinum, og vil ég biðja viðkomandi afsökunar á því.
Þetta kom mér til að hugsa,  ég hef ekki hugmynd um hvort þetta var barn eða fullorðinn, karlkyns eða kvenkyns, viðkomandi var svartklæddur frá toppi til táar og hvergi endurskin.  Ég tók ekki eftir manneskjunni fyrr en ég keyrði fram hjá og skvetti yfir hann/hana, hef þó alltaf varann á mér.
Nú langar mig til að benda fólki á að hafa endurskin á sér, það er alveg hræðilegt að lenda í að fá gusuna yfir sig eða bíl á sig.  Það er svo mikilvægt að sjást vel, og fyrir bílstjóra að hafa eitthvað til að aðgreina frá myrkrinu.“

 

Bæjarins besta vill hvetja lesendur til þess að íhuga þessa ábendingu og gera ráðstafanir til þess að vegfarendur, börn sem fullorðnir verði vel merktir í skammdeginu svo bílstjórar sjá þá vel og greiðlega. Eitt augnablik getur verið afdrifaríkt og valdið alvarlegum og ævilöngum skaða sem vel er hægt að komast hjá.

 

 

DEILA