100 manna fundur Framsóknar um fiskeldi

Frá fundi Framsóknarflokksins á Ísafirði í gærkvöldi. Mynd: Ásmundur Einar Daðason.

Húsfyllir var á almennum  fundi Framsóknarflokksins á Ísafirði í gærkvöldi sem boðaður var um fiskeldi sérstaklega. Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi sagði að fundurinn hefði verið málefnalegur og að fram hefði komið að framsóknarmenn standi sem einn maður saman um fiskeldi í Djúpinu.

Fyrir fundinn var formanni Framsóknarflokksins, Sigurði Inga Jóhannssyni  sendar spurningar um þrjú mál þar sem spurt var um afstöðu flokksins til þeirra og fara svör hans við þeim hér á eftir.

Varðandi Teigsskóg:

„Loksins sér fyrir endann á þessu máli sem hefur í raun haldið aftur af uppbyggingu á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég vona innilega að framkvæmdir geti hafist strax á næsta ári.“

 

Varðandi fiskeldi:

„Sú mynd sem blasir oftast við í fjölmiðlum um fiskeldi er yfirleitt annaðhvort svört eða hvít, annaðhvort er fiskeldi mengandi stóriðja sem eyðileggur villta laxinn og umhverfið eða algjör guðs gjöf án neinna vandkvæða.

Raunveruleikinn er auðvitað annar. Í þessari atvinnugrein eru áskoranir fyrir náttúruna t.d. laxalús, sjúkdómamál og slysasleppingar. Sama gildir fyrir samfélögin, hvernig fá þau tekjur af greininni til þess að standa undir innviðauppbyggingu, hvernig eiga þau að fjármagna nýja leikskólann, grunnskólann og hafnarmannvirkin? Þetta eru áskoranir sem stjórnvöld þurfa að taka alvarlega og horfa til þegar þau móta rammann, ráðherra málaflokksins er nú með frumvarp á sínu borði sem væntanlegt er til Alþingis þar sem atvinnuveganefnd þarf að leggjast yfir málið.

Staðan í dag er hins vegar sú að síðan áhættumat um erfðablöndun frá Hafró kom út árið 2017, og stefnumótunarskýrsla Þorgerðar Katrínar sömuleiðis, hefur verið óvissa bæði hjá stofnunum og fyrirtækjum með uppbyggingu fiskeldis, sérstaklega hér við Ísafjarðardjúp vegna áhættumatsins. Við eigum að byggja þessa grein upp á vísindum en verðum líka að horfa til þess að áhættumat Hafró er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum, það á enn eftir að rýna matið á alþjóðlegum vettvangi og slíkt mat þarf að taka tillit til mótvægisaðgerða sem það gerir ekki nú.

Við eigum ekki að þurfa að finna upp hjólið, laxeldi hefur verið stundað í Noregi í rúmlega 40 ár, Norðmenn  brenndu sig á því að fara óvarlega en hafa lært af reynslunni og eru að ná hratt tökum á helstu umhverfisvandamálum. Færeyingar sömuleiðis hafa náð ótrúlegum árangri með ströngum heilbrigðiskröfum eftir að óvarfærni leiddi til algjörs hruns þar í eldinu fyrir rúmum 10 árum vegna sjúkdóma. Við getum og eigum að læra af reynslu þeirra nú þegar við erum að byggja okkur upp.

Árið 2004 var tekin risastór ákvörðun um að loka stærstum hluta strandlengjunnar fyrir fiskeldi að Vestfjörðum og Austfjörðum undanskildum. Á þeim grundvelli hafa fiskeldisfyrirtækin sótt um leyfi hér og ég held að lengsta umsóknarferlið hér við Djúp sé að verða 8 ára, væri að fara í þriðja bekk ef þetta væri barn. Hvar sem fólk stendur í þessum málum hljóta allir að sjá að þetta er ekki eðlilegur málsmeðferðartími hjá stjórnvöldum og þessu þarf að breyta.

Til lengri tíma byggir byggðastefna á sjálfbærri fjölgun starfa. Staðreyndin er sú að Vestfirðingum hefur fækkað mikið síðustu 25 ár en með tilkomu eldisins hefur orðið viðsnúningur á sunnanverðum fjörðunum og norðanmegin hafa byggst upp réttmætar væntingar um uppbyggingu. Svo það takist verðum við að setja skýran lagaramma með ströngum leikreglum þar sem hægt er að treysta á leyfisveitingarferlið og leyfin.

Ég hef fulla trú á því að hægt sé að finna jafnvægi í uppbyggingu eldisins þannig það verði til hagsbóta fyrir samfélögin og í sátt við náttúruna.“

 

Varðandi Hvalárvirkjun:

„Hvalárvirkjun er hluti af rammaáætlun 2 og enn liggur ekki fyrir breyting á stöðu hennar þar. Við í Framsókn erum almennt þeirrar skoðunar að hlusta beri á raddir heimamanna.“

Formaður Framsóknarflokksins í ræðustól á fundinum í gærkvöldi. Mynd: Marzellíus Sveinbjörnsson.

 

DEILA