Vegagerðin: íbúafundur á Reykhólum

Frá undirskrift samninga 2012 um framkvæmdir við Vestfjarðaveg, Eiði - Þverá.

Borist hefur fréttatilkynning frá Vegagerðinni, þar sem kunngert er að Vegagerðin muni halda íbúafund í Reykhólahreppi miðvikudaginn 9. janúar nk. kl. 16:30 í skólanum á Reykhólum.

Allir eru velkomnir á þann fund en þar mun Vegagerðin skýra sín sjónarmið varðandi val á veglínu á milli Bjarkalundar og Skálaness.

 

13. desember 2018 brást Vegagerðin við valkostaskýrslu Viaplan frá 12. desember  og sagði afstöðu stofnunarinnar óbreytta og að Vegagerðin legði áfram til að farin yrði Þ-H leiðin, sem kæmi best út við samanburð á öryggi, greiðfærni, styttingu leiðar og er hagkvæmari. Valkostaskýrsla frá 12. desember breytti ekki þeirri niðurstöðu.

Undirbúningur að framkvæmdum við vegagerð á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness hefur staðið lengi eða allt frá árinu 2004 þegar fyrsta tillaga að matsáætlun var lögð fram.

Í svari Vegagerðarinnar við valkostaskýrslunni segir m.a. :

„Megin markmið fyrirhugaðra framkvæmda hefur verið að tengja sunnanverða Vestfirði með góðum samgöngum, styttingu vegalengda og uppbygging heilsársvegar með bundnu slitlagi. Fyrirsjáanlegt er að umferð um Vestfjarðaveg í Gufudalssveit muni aukast umtalsvert á næstu árum. Dýrafjarðargöng verða opnuð árið 2020 og undirbúningur er hafinn að nýjum heilsársvegi um Dynjandisheiði. Ásamt vegabótum í Gufudalssveit mun því vegalengd milli Reykjavíkur og Ísafjarðar styttast um 50 km. (Dýrafjarðargöng 27,3 km, Dynjandisheiði 2-3 km, leið Þ-H 21,6 km).“

„Það er ljóst að verkefni Vegagerðarinnar snýr að því að tengja Vestfirði með stofnvegi og tryggja þannig samgöngur við Vestfirði sem heild, hagsmunir Reykhólahrepps eru því ekki einir hafðir til hliðsjónar við leiðaval.“

„Vegagerðin hefur lagt til við Reykhólahrepp að að nýr Vestfjarðavegur verði lagður samkvæmt leið Þ-H og er það gert að vel athuguðu máli. Sú framkvæmd er fullfjármögnuð í þeirri tillögu að samgönguáætlun sem er til umfjöllunar á Alþingi.  Velji sveitarstjórn Reykhólahrepps að fara aðra leið sem Vegagerðin telur dýrari er ljóst að sú leið er ekki fjármögnuð að fullu og óvíst hvenær framkvæmdir geti hafist. “

 

DEILA