Tvö vestfirsk verkefni á Eyrarrósarlistanum 2019

Tvö vestfirsk verkefni eru á Eyrarrósarlistanum þetta árið. Það eru Act Alone leiklistar- og listahátíð, Suðureyri og Gamanmyndahátíð Flateyrar.  Act Alone hefur áður verið á listanum en Gamanmyndahátíðin kemur í fyrsta sinn til greina. 

Frá árinu 2005 hafa Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík veitt viðurkenningu í nafni Eyrarrósarinnar til afburða menningarverkefna utan höfuðborgarsvæðisins. Eyrarrósinni er ætlað að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar á sviði menningar og lista.

Alls bárust 30 umsóknir um Eyrarrósina 2019 hvaðanæva af landinu en sex þeirra hafa nú verið valin á Eyrarrósarlistann og eiga þar með möguleika á að hljóta tilnefningu til sjálfra verðlaunanna í ár.

Á Eyrarrósarlistanum 2019 birtast nöfn þeirra sex verkefna sem eiga möguleika á að hljóta verðlaunin í ár. Sjálfri Eyrarrósinni fylgir tveggja milljón króna verðlaunafé en að auki munu tvö verkefnanna hljóta 500 þúsund króna verðlaun.

Eyrarrósarlistinn 2019:

  • Act Alone leiklistar- og listahátíð, Suðureyri
  • Gamanmyndahátíð Flateyrar
  • List í ljósi, Seyðisfirði
  • Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Norðanáttin (Nothern Wave), Snæfellsbæ 
  • LungA skólinn, Seyðisfirði
  • Plan-B listahátíð, Borgarnesi

 

Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 12. febrúar næstkomandi í Garði, Suðurnesjabæ, heimabæ alþjóðlegu listahátíðarinnar Ferskra Vinda sem er handhafi Eyrarróasarinnar frá síðasta ári. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.

Um verkefnin segir í fréttatilkynningu:

Act Alone, Suðureyri
Leiklistar- og listahátíðin Act Alone, sem haldin verður í 16. sinn í sumar á Suðureyri, hefur markað sér algera sérstöðu á landsvísu með því að helga sig listum þar sem aðeins ein manneskja stendur á sviðinu. Frá upphafi hefur verið ókeypis á alla viðburði hátíðarinnar og er hún farin að laða að sér fastan hóp gesta bæði heimafólks og annarra. Hátíðin stendur yfir eina helgi í ágúst og boðið er upp á um 20 viðburði hverju sinni. Í ár verður boðið m.a. upp á leiklist, dans, tónlist, myndlist, ritlist og gjörningalist og sérstök áhersla lögð á fjölskylduviðburði. 

Gamanmyndahátíð Flateyrar
Undanfarin fjögur ár hefur Gamanmyndahátíð Flateyrar verið að festa sig í sessi. Hátíðin er ein af örfáum gamanmyndahátíðum Evrópu en um 30 íslenskar gamanmyndir eru sýndar á hátíðinni ár hvert; stuttmyndir eftir unga leikstjóra í band við þekktar myndir í fullri lengd.  Tæplega eitt þúsund gestir sóttu viðburði hátíðarinnar á síðasta ári sem fóru flestir fram í gömlum bræðslutanki á Flateyri. Auk gamanmynda býður hátíðin upp á gamansamar leiksýningar, tónleika, uppistand, hláturjóga, vinnusmiðjur, listamannaspjall o.fl. 

DEILA