Pétur Markan sveitarstjóri segir upp

Pétur markan hefur sagt lausi starfi sínu sem sveitarstjóri í Súðavík. Þetta gerðist í dag á fundi sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps.  Sveitarstjórn óskaði eftir því að Pétur ynni
uppsagnarfrestinn, sem er þrír mánuðir. Oddvita og sveitarstjóra var falið að samband við ráðningarstofu og undirbúa auglýsingu vegna ráðningar nýs sveitarstjóra í Súðavíkurhreppi og leggja fyrir sveitarstjórn.

Steinn Ingi Kjartansson oddviti þakkaði Pétri fyrir vel unnin störf og óskaði honum og
fjölskyldunni velfarnaðar í framtíðinni.

Pétur sagði í samtali við Bæjarins besta að ástæðan væri breytingar í fjölskyldunni sem kölluðu á búsetubreytingar.  Hann sagðist gera ráð fyrir að vera fram á vorið og sagði að vel hefði gengið og bjart væri yfir sveitarfélaginu.

Á hreppsnefndarfundinum lagði Pétur fram uppsagnarbréfið sem er svohljóðandi:

Undanfarið hafa birst tvær fréttir á héraðsmiðlinum BB. Annars vegar frétt með yfirskriftinni, Góð fjárhagsstaða, þar sem farið er yfir fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2019 og góðan fjárhagslegan árangur síðustu ára. Hins vegar frétt með yfirskriftinni Vestfirðingum  fjölgar, þar sem kemur fram að íbúum Súðavíkurhrepps hafi fjölgað um 4%.
Báðar þessar fréttir segja sögu af góðum árangri síðustu ára – gefa ágætis mynd af því sem hefur afrekast. Staðreynd sem gleður mig mjög þegar ég skrifa þessa stuttu tilkynningu.
Ég hóf störf fyrir Súðavíkurhrepp sumarið 2014. Síðan hefur tíminn liðið á ljóshraða krefjandi verkefna, ánægjulegra kynna, sigra og og stundum erfiðra tímabila.
Ég hef, í samráði við fjölskyldu mína, ákveðið að segja starfi mínu lausu sem sveitarstjóri
Súðavíkurhrepps. Framundan eru breytingar hjá fjölskyldunni sem kalla á þessar breytingar á mínum störfum.
Það er von mín og vissa að bjart sé yfir framtíð sveitarfélagsins. Mér er efst í huga þakklæti til íbúa Súðavíkurhrepps fyrir að hafa fengið að stýra sveitarfélaginu, sú reynsla er dýrmæt,
þakklát og verðmæt.
Ég vil þakka sveitarstjórn fyrir samstarfið og óska henni velfarnaðar, hamingju og gleði á
komandi tímum, árum og áratugum.

Súðavík 9. janúar 2019.
Pétur G. Markan

DEILA