Örorkubætur leiðrétting: Tryggingarstofnun þráast við

Tryggingarstofnun ríkisins hefur þráast við að gera leiðréttingu á örorkubótum þeirra sem skertir voru vegna búsetu erlendis einhvern tíma fyrir örorku þrátt fyrir álit Umboðsmanns Alþingis frá 20. júní 2018. Heimildir bb.is herma að Tryggingarstofnun hafi í meira en hálft ár, svarað alltaf með loðnum og almennum hætti og vísað til þess að það þurfi að skoða svo margt. Þrátt fyrir skýra niðurstöðu umboðsmanns.

Þá hafi Tryggingarstofnun ríkisins  haldið því fram að það gæti ekkert gert fyrr en afstaða velferðarráðuneytisins lægi fyrir. Hún lá fyrir í lok nóvember með skýrum hætti en samt segir TR í desember 2018 að það sé enn að skoða ýmsa fleti.

Tryggingarstofnun hafði um langt árabil skert bótarétt þess sem fór á örorku, ef viðkomandi hafði búið erlendis einhvern tíma fyrir örorku á þann hátt að gert var ráð fyrir því að viðkomandi örorkuþegi myndi búa erlendis hutfallslega jafnlengi fram að 67 ára aldri og hann hafði gert fyrir örorku þótt fæuttur væri heim til Íslands.

2016 skaut einn örorkuþeginn málinu til Umboðsmanns Alþingis en sá hafði mátt þola skerðingu á rétti sínum úr 47% af örorkulifeyri niður í tæplega 22%. Áður hafði úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfest framkvæmd Tryggingarstofnunar ríkisins. Niðurstaða Umboðsmanns var á annan veg. Taldi hann að miðað við lagagrundvöll málsins yrði ekki annað ráðið en að að reikna bæri öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi. Væri því ekki viðhlítandi lagaheimild fyrir þeirri framkvæmd sem verið hafði um langan tíma. Mæltist hann itl þess að stjórnvöld myndu taka mið af áliti sínu og kvaðst myndu kynna álit sitt fyrir Tryggingarstofnun ríkisins.

Velferðarnefnd Alþingis kallar svo eftir áliti Velferðarráðuneytisins sem svarar með tveimur bréfum. Það fyrra í lok nóvember 2018 þar sem ráðuneytið tekur undir skilning Umboðsmanns Alþingis  og ÖBÍ um að reglan sé skýr um það hvernig reikna eigi búsetuhlutfall. Seinna bréfið er frá 21. desember og þar kemur fram að TR eigi að endurgreiða og tölur um fjölda og kostnað. Eru það rúmlega 1000 manns sem eiga re´tt á endurgreiðslu og er árlegur kostnaður liðlega 500 milljónir.

það er óvenjulegt að ráðuneyti skuli segja berum orðum að Tryggingarstofnun ríkisins muni endurgreiða en það eru ekkert annað en bein fyrirmæli til stofnunarinnar.

Töluverðrar reiði gætir í garð Tryggingarstofnunar ríkisins vegna framgöngu stofnunarinnar, ekki hvað síst síðan álit Umboðsmanns Alþingis lá fyrir og segir heimildarmaður bb.is að á meðan TR segist vera að skoða málin þá haldi stofnunin áfram að skerða bætur eins og ekkert hafi í skortist  og stofni endurgreiðslukröfur á fólk vegna „ofgreiðslna“ þrátt fyrir að ljóst megi vera að þetta fólk eigi að fá hærri bætur á tímabilinu sem TR telur sig hafa „ofgreitt“ og að því ónefndu að viðkomandi eigi hundruð þúsunda ef ekki milljóna kröfur á TR vegna ólögmætra skerðinga aftur í tímann.

 

DEILA