Lögum breytt vegna Árneshrepps

Trékyllisvík. Séð til Reykjaneshyrnu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor var gerð tilraun til óvinveittrar yfirtöku í Árneshreppi. Hópur fólks skráði sig til lögheimilis á lögbýlum í hreppnum án þess að hafa búsetu í hreppnum eða að ætla sér það. Var meðal annars að finna fólk sem búsett er erlendis. Tilgangurinn var augljóslega að kjósa hreppsnefnd sem myndi standa gegn áformum um Hvalárvirkjun.

Á Dröngum, svo dæmi sé tekið, skráði sig til lögheimilis á annan tug manna og kvenna án þess að hafa leitað eftir samþykki húseigenda. Þessu áhlaupi var hrundið þar sem Þjóðskrá felldi langflesta af kjörskrá og færði lögheimili þeirra aftur úr hreppnum til fyrri lögheimilsstaðar.

Lögum um lögheimili hefur nú verið breytt og tók breytingin gildi nú um áramótin. Nokkuð margar breytingar voru gerðar og af ólíkum toga. Ein helsta breytingin var vegna þessara aðgerðar í Árneshreppi og nú er gerð sú krafa til þinglýsts eiganda fasteignar að hann hlutist til um að skráning lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans sé rétt. Gert er ráð fyrir að  þinglýstur eigandi fái senda tilkynningu í pósthólf sitt á Ísland.is um þá sem skrá lögheimili sitt í fasteign í hans eigu. Vanræki eigandi fasteignar ofangreindar skyldur getur það varðað sektum.

Bætt er við lögum sektarákvæðum sem ekki voru áður skýr og Þjóðskrá fær rýmri heimildir og skyldur til þess að tryggja lögheimilisskráningu verði sem réttust hverju sinni.

DEILA