Lög um umhverfismat endurskoðuð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp með það hlutverk að endurskoða í heild sinni lög um mat á umhverfisáhrifum.

Í fréttatilkynningu segir að meginmarkmiðin með heildarendurskoðun laganna séu að auka skilvirkni í ákvarðanatöku við mat á umhverfisáhrifum og að tryggja sem best aðkomu almennings og annarra hagsmunaaðila að ferlinu þannig að hún samræmist sem best ákvæðum Árósasamningsins hvað varðar þátttökuréttindi almennings.

Vinna við endurskoðun laganna hófst á árinu 2018 með upphafsfundi með hagsmunaaðilum auk þess sem leitað hefur verið eftir hugmyndum og athugasemdum í opnu samráðsferli. Einnig er hafin greiningarvinna á tilteknum þáttum í löggjöf nágrannalandanna sem fjalla um ferli mats á umhverfisáhrifum og leyfisveitingar. Niðurstaða greiningarinnar mun nýtast sem grunnur í vinnu starfshópsins.

Starfshópinn skipa:

  • Kolbeinn Óttarsson Proppé, formaður, skipaður án tilnefningar,
  • Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri, tilnefnd af Skipulagsstofnun,
  • Hildur Dungal, lögfræðingur, tilnefnd af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti,
  • Jón Gunnarsson, alþingismaður, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Pétur Reimarsson, verkfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins,
  • Sigríður Droplaug Jónsdóttir, tilnefnd af umhverfisverndarsamtökum og
  • Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
DEILA