Lítil erfðafræðileg áhrif af því að sleppa 40 milljónum laxaseiða

Frá ráðstefnunni í Hofi á Akureyri. Frá vinstri: Þorleifur Ágústsson, Anna G. Edwardsdóttir, Þorleifur Eiríksson og Ragnar Jóhannsson.

Mikil aðsókn var að ráðstefnu um fiskeldi í Eyjafirði, sem haldin var á laugardaginn á Akureyri. Það var Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar sem efndi til raðstefnunnar. Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri atvinnuþróunarfélagsins sagði að aðsókn hefði farið langt fram úr sínum vonum. Gert hafði verið ráð fyrir að um 100 manns myndu sækja ráðstefnuna en all komu um 170 manns og var húsnæðið troðfullt.

Líklega er þetta ein fyrsta ráðstefna af þessu tagi, þar sem fræðimenn koma og gera grein fyrir fiskeldi og áhrifum þess, hver  út frá sinni sérþekkingu. Miðaðist ráðstefnan við að gera grein fyrir mögleikum fiskeldis í Eyjafirði. Heimilt er að stunda fiskeldi í Eyjafirði ásamt svæðum á Vestfjörðum og Austfjörðum, en annars staðar er fiskeldi í sjó bannað.

Flutt voru sjö erindi. Athyglisvert er að þrír fyrirlesarar bjuggu lengi og störfuðu á Vestfjörðum.

Það eru þau Anna G. Edwarsdóttir, Þorleifur Ágústsson og Þorleifur Eiríksson.

Anna fjallaði um áhrif atvinnuppbyggingar á sjálfbærni og seiglu samfélaga. Þorleifur Ágústsson ræddi laxeldi almennt, einkum í Noregi þar sem hann starfar. Kom fram í erindi hans að meira en 1000 leyfi hefðu verið gefin út , ástand villtu laxastofnana væri almennt gott. Laxalúsin væri helsti vandinn þar en Þorleifur sagði að engin birt vísindagrein sýndi fram á að laxalúsin hefði áhrif á villta stofna. Helsti vandi villtu stofnana hefði verið ofveiði í net.  Lagði hann áherslu á að sjókvíaeldi yrði að vera í sátt við íbúana. Kostur hér á landi við laxeldið væri að sjórinn væri kaldari og laxalúsin vex hægar.

Þorleifur Eiríksson ræddi áhrif laxeldis á lífríki fjarðarins, sem væri einkum truflun sem leiddi af nýjum lífmassa í sjónum  og úrgangur frá honum. Rannsóknir hans sýna að úrgangurinn minnkar hratt þegar frá kvíum er farið.

Aðrir sem fluttu erindi voru Steingrímur Jónsson sem fór yfir haffræði og strauma, Stefán Óli Steingrímsson ræddi umhverfismál fiskeldis. Benti Stefán á að eldislaxinn stendur sig verst í náttúrulegu umhverfi og fer þar halloka fyrir villta laxinum. Helstu áhrifaþættir varðandi mögulega blöndum væru stærð stofns villta laxins og magn sleppinga. Lítill stofn og miklar sleppingar þýddu verulega áhættu en stór stofn og litlar sleppingar aftur á móti litla áhættu. Helgi Thorarensen fór yfir valkosi í fiskeldi í Eyjafirði, svo sem landeldi. Þessi þrír eru allir starfandi við Háskólann á Akureyri eða Háskólann á Hólum.

Loks flutti erindi Ragnar Jóhannsson frá Hafrannsóknarstofnun. Ragnar fer með gerð áhættumatslíkansins við stofnunina sem Vestfirðingar þekkja og var vísað til þess þegar Hafrannsóknarstofnunin kom í veg fyrir laxeldi í Djúpinu. Athyglisvert er að Ragnar er menntaður í efnaverkfræði en hvorki í líffræði, erfðafræði né neinu sem tengist fiskeldi.  Hann var sá eini af fyrirlesurunum sem ekki er sérmenntaður í því sem hann flutti fyrirlestur um. Gerði Ragnar grein fyrir áhættu við erfðablöndun og mótvægisaðgerðir.

Fram kom hjá honum í svari við fyrirspurn lítil erfðafræðilega áhrif hefður orðið af hafbeit, en sleppt var um 40 milljónum laxaseiða um áratuga skeið.

 

 

 

 

DEILA