Ísafjarðarbær krefst efnda

Í umsögn Ísafjarðarbæjar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi og drög að frumvarpi um gjald vegna nýtingar
eldissvæða í sjó er þess krafist að að staðið verði við fyrirheit um að sviðsstjóri fiskeldismála hjá Hafrannsóknastofnun ásamt sérfræðingum verði með aðsetur á Ísafirði.

En því var heitið í tilkynningu frá 6. október 2016 frá þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni.

Segir í umsögninni að krafan sé „að rannsóknir, skipulag og eftirlit atvinnugreinarinnar verði byggt upp á Vestfjörðum. Uppbygging og vöxtur fiskeldis byggir á þekkingaröflun, rannsóknum og eftirliti og þarf að eiga sér stað í nánu samstarfi við fyrirtæki og samfélag á Vestfjörðum.“

félagslegir og efnahagslegir þættir

Í umsögninni segir ennfremur að við löggjöf þurfi að gæta þess að mæta sjónarmiðum fleiri en helstu hagsmunaaðila eins og fiskeldisfyrirtækja og veiðiréttarhafa  um tilhögun laxeldis.

„Margir aðrir þættir hljóta að þurfa að koma til skoðunar s.s. félagslegir og efnahagslegir þættir samfélaganna þar sem eldið fer fram. Hagsmunir íbúa á Vestfjörðum af því að vel takist til með eldi eru talsvert meiri en möguleg neikvæð áhrif fyrir veiðiréttarhafa.“

engar tekjur sveitarfélaga

Ísafjarðarbær gerir athugasemd við að í drögum að lögum hafi verið vikið frá forsendu fyrra
frumvarps um skiptingu tekna af fiskeldi á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er mikilvægt til að sátt skapist um eldið í samfélögunum þar sem að fiskeldi fer fram að sveitarfélögin njóti góðs ef eldi í fjörðum sveitarfélagsins. Miðað við frumvarpið eins og það er kynnt fái sveitarfélögin engar tekjur og telur Ísafjarðarbær mikilvægt að tryggt sé að hluti afgjalds af fiskeldi renni beint til þeirra sveitarfélaga þar sem eldi fer fram.

engin aðkoma sveitarfélaga að leyfisveitingum

Eins og núverandi frumvarp er sett upp hafa sveitarfélög enga aðkomu að leyfisveitingaferli í fiskeldi. Að mati Ísafjarðarbæjar er það ókostur að sveitarfélagið hafi ekkert um það að segja hvernig eldi innan sveitarfélagsins er háttað. Ísafjarðarbær leggur til að þetta verðið
endurskoðað. Sérstaklega ef tekjur sbr. 5., 6., og 7. gr. frumvarpsins eiga ekki að renna til
sveitarfélaga. Til að sátt sé um eldið í sveitarfélögunum þurfa þau að vera aðilar að
leyfisveitingarferlinu til að geta sett skilyrði eða í það minnsta fengið af eldinu beinar tekjur.

áhættumat – lítil áhætta

Um áhættumatið segir í umsögninni:

„Ef það áhættumat sem lagt hefur verið fram er rétt þá er niðurstaðan sú fyrir eldi á
Vestfjörðum að hægt er að framleiða sem nemur öllu burðarþoli fjarða á svæðinu að
undanskildu Ísafjarðardjúpi án þess að áhætta sé metin of mikil fyrir allar laxveiðiár landsins.
Jafnframt staðfestir áhættumatið að væri laxeldi í Ísafjarðardjúpi sem nemur 30.000 tonna
framleiðslu eða jafnt og metið burðarþol djúpsins mun erfðablöndun í laxveiðiám utan
Vestfjarða vera innan marka Hafrannsóknarstofnunar. Hins vegar segir áhættumatið að tvær laxveiðiár í Ísafjarðardjúpi séu í hættu hvað erfðablöndun varðar ef eldi sem nemur burðarþoli Ísafjarðardjúps væri leyft.“

Síðar segir: „telur Ísafjarðarbær mikilvægt að kanna leiðir til þess að eldi í Ísafjarðardjúpi verði að veruleika. Ísafjarðarbær vill því velta upp þörfinni á því að áhættumat sé stöðugt uppfært og að því sé gert jafn hátt undir höfði og gera á í núverandi frumvarpi. Ljóst má vera að áhætta vegna erfðablöndunar er lítil á landinu öllu og frekar ætti að leita leiða til að hefja eldi t.d. í Ísafjarðardjúpi og Austfjörðum í áföngum með það að markmiði að burðarþol fjarða verði nýtt.“

DEILA