Gat á kví: ekki merki um tjón

Arnarlax sendi í gær tilkynningu til Matvælastofnunar um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði.

Gatið uppgötvaðist við skoðun kafara í gærmorgun og er viðgerð lokið. Samkvæmt upplýsingum Arnarlax var gatið um 15cm x 50cm og á 20m dýpi og voru um 157.000 laxar í kvínni með meðalþyngd 1,3 kg.

Þorsteinn Másson sagði í svari við fyrirspurn Bæjarins besta fyrr í dag að fóðrun og atferli fiks í kvínni væri óbreytt sem gefur til kynna að lífmassi hafi lítið sem ekkert breyst og ekki hefur orðið vart við fisk utan við kvína.

Að sögn Þorsteins er  fyrirtækið með skýra verkferla þegar svona atvik koma upp og hefur starfsfólk fylgt þeim í samvinnu við Fiskistofu og MAST.

Gatið uppgötvaðist við daglegt eftirlit starfsfólks. Kafarar fylgja reglubundnu eftirliti og notaðar eru myndavélar.  „Við erum einmitt að skoða það núna hvenær og hvernig þetta gæti hafa gerst með yfirvöldum“ segir Þorsteinn.

DEILA